Erlent

Gífurleg flóð í Filippseyjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Þrátt fyrir að dregið hafi úr styrk fellibylsins Koppu í Filippseyjum, fylgir honum mikil rigning og eru þorp komin á kaf. Minnst 16 eru látnir og tugir þúsunda hafa þurft að flýja heimili sín. Hermenn hafa verið kallaðir út til að bjarga fólki sem situr fast á húsþökum.

Yfirvöld í Filippseyjum óttast að þessi mikla rigning muni jafnvel valda aurskriðum, en samkvæmt spám mun rigna áfram í nokkra daga. Koppu er næst stærsti fellibylurinn sem lendir á Filippseyjum í ár. Hann skall á ströndum eyjanna á sunnudaginn en fer mjög hægt yfir.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni hefur rigningin og flóðin valdið miklum skemmdum á landbúnaðarsvæðum á austurströnd Luzon eyjunnar. Þá er búist við að fjöldi látinna muni aukast verulega, en lítið er vitað um afdrif margra afskekktra þorpa í Filippseyjum.

Um tuttugu óveður fara yfir eyjarnar á ári hverju. Árið 2013 létust eða týndust minnst 7.350 manns þegar Haiyan fór yfir Filippseyjar.

Uppfært 10:50

Fyrst stóð í fréttinni að minnst tveir væru látnir, en sú tala er nú komin í 16.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×