Innlent

Gífurleg blóðtaka fyrir HIV-samfélagið

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Framkvæmdastjóri HIV á Íslandi segir óvíst hvort að lykilinn að lækningu á veirunni hafi tapast þegar þegar tugir HIV sérfræðinga fórust með malasísku flugvélinni MH 17 á fimmtudag. Fráfall þeirra sé gríðarlegt áfall.

Um borð í malasísku flugvélinni MH 17 sem skotin var niður af eldflaug í austurhluta Úkraínu á fimmtudag voru tugir virtra frumkvöðla, sérfræðinga og talsmanna á sviði rannsókna á HIV-veirunni og alnæmi. Einn þekktasti sérfræðingur heims á þessu sviði, Hollendingurinn Joep Lange, var meðal þeirra sem létu lífið í árásinni. Hann var ásamt fjölmörgum fræðimönnum öðrum á leið á alþjóðlega ráðstefnu um HIV og alnæmi sem haldin er í Melbourne.

„Þetta hefur mikil áhrif og er gífurleg blóðtaka því þarna farast þekktir, mikilvægir vísindamenn og þungavigtar fólk í HIV-málaflokknum,“ segir Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri hjá HIV Ísland.

Misst kröftugan sérfræðing og talsmann

Hollendingar hafa staðið öðrum þjóðum framar í rannsóknum og opinni umræðu um HIV og alnæmi. Einar segir að Lange hafi beitt sér sérstaklega fyrir því að lækka verð á lyfjum gegn sjúkdómnum - sér í lagi í þróunarríkjum. HIV samtökin hafi missti kröftugan talsmann.

„Ég er í samskiptum við marga í ýmsum hópum sem tengjast HIV og fólk er mjög slegið,“ segir Einar Þór. „Ég veit að á ráðstefnunni í Melbourne hefur slysið haft mikil áhrif og þar ríkir mikil sorg.“

Ráðstefnugestir í Melbourne syrgja vini og kollega sem fórust í slysinu. „Hvað ef lækningin við eyðni tapaðist í þessu slysi? Það voru áhrifamiklir rannsakendur í vélinni sem hafa unnið á þessu sviði í mjög langan tíma,“ segir Trevor Stratton, einn þátttakenda í ráðstefnunni í Melbourne.

„Það er ýmsu slegið upp í æsifréttastíl að það hafi verið svo mikil þekking sem hafi farið með þessum mönnum að lykilinn að lækningunni hafi farið með,“ segir Einar Þór. „Auðvitað er þetta mikil blóðtaka en við sjáum hvað verður.“


Tengdar fréttir

Virtir frumkvöðlar á sviði HIV-rannsókna voru um borð

Á meðal þeirra sem létust eftir að MH17 var skotin niður var hópur vísindamanna á leið á alþjóðlega alnæmisráðstefnu. Einn þeirra er Joep Lange sem var í fremstu röð í rannsóknum á HIV-veirunni.

Úkraínumenn bjóða Hollendingum að stjórna rannsókn

Í dag eru fjórir sólarhringar liðnir frá því flugvél Malaysian flugfélagsins var skotin niður án þess að formleg rannsókna hafi farið fram. Uppreisnarmenn meina rannsakendum fullan aðgang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×