Lífið

Getur ekki beðið eftir að sjá Ásgeir á Íslandi

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Eva var himinlifandi þegar hún frétti að hún hefði unnið keppnina.
Eva var himinlifandi þegar hún frétti að hún hefði unnið keppnina. Vísir
„Þetta er alveg frábært, ég er ekki að trúa þessu! Tónleikar með Ásgeir Trausta í heimalandi hans, þetta var eitt af því sem ég ætlaði mér að gera í lífinu,“ segir hin franska Eva Lucas.

Hún datt svo sannarlega í lukkupottinn þegar hún var dregin út í leik á Facebook-síðu Ásgeirs. Þar höfðu 14.200 útlendingar skráð sig í leikinn, þar sem verðlaunin voru flug til Íslands, gisting á hóteli og miðar fyrir tvo á tónleika Ásgeirs í Hörpu 16. júní.

Eva var í skýjunum þegar umboðsmaður Ásgeirs tilkynnti henni gleðitíðindin. Þetta verður í fyrsta sinn sem hún heimsækir landið, en hún er búsett í Anglet í Frakklandi.

„Ég hef aldrei komið til Íslands áður og heldur aldrei séð Ásgeir á tónleikum, svo þetta verður í fyrsta sinn sem ég geri hvorutveggja.“

Eva er mikill aðdáandi Ásgeirs og ætlar að taka bestu vinkonu sína með á tónleikana, sem einmitt kynnti hana fyrir tónlist Ásgeirs.

Þær vinkonurnar fá svo sannarlega íslenska tónlistarveislu, þar sem ljóst er að hljómsveitin Vök mun hita upp fyrir tónleikana, en sveitin hefur slegið í gegn síðan hún sigraði Músíktilraunir árið 2013. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×