Skoðun

Getum við verndað vatnið okkar?

Hólmfríður Sigurðardóttir skrifar
Vatnsveitum er falið að afla heilnæms neysluvatns fyrir fólk og atvinnulíf til langrar framtíðar. Verkefni okkar hjá Orkuveitu Reykjavíkur hvað þetta varðar er umfangsmikið. Vatnsból OR eru fimmtán og þjóna fólki og fyrirtækjum á Vesturlandi, Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Viðfangsefni vegna vatnsveitunnar eru mörg og mismunandi. Í Heiðmörk þrengir til dæmis að vatnsbólum vegna annars konar nýtingar, á Akranesi er vatnið geislað þar sem verið er að nýta yfirborðsvatn og varmamengun er við Þingvallavatn.

Við hjá Orkuveitunni leggjum áherslu á að tryggja gæði neysluvatns til íbúa og ástæðan er einföld; það er ekki hægt að innkalla mengað neysluvatn. Því vinnum við markvisst að fyrirbyggjandi eftirliti, vöktun og forvörnum.

Verndun neysluvatns er okkar hjartans mál. Öryggisreglur eru í gildi vegna framkvæmda og umferðar um vatnstökusvæði. Vatnsvinnsla í Heiðmörk byggist alfarið á hreinu og ómeðhöndluðu grunnvatni. En getum við verndað vatnið, er baráttan töpuð og munum við sætta okkur við meðhöndlað vatn til framtíðar?

Á árinu 2014 var hafist handa við gerð heildaryfirlits um neysluvatnsmál höfuðborgarsvæðisins með hliðsjón af jarðfræði, umhverfismálum, vatnsnotkun, rekstri, áhættu, orðspori og framtíðarsýn.

Tillaga að endurskoðun vatnsverndar á svæðinu var auglýst haustið 2014 og tillaga að nýju svæðisskipulagi var auglýst undir lok árs 2014. Vatnsvernd er eitt af meginmarkmiðum nýja svæðisskipulagsins. Afmörkun vatnsverndarsvæða í tillögunni tekur mið af mun nákvæmari rannsóknum en áður, sem er traustvekjandi. Samhliða breyttri afmörkun verndarsvæðanna þarf að ákveða hvaða reglur skuli gilda um umsvif á þeim. Margir eiga hagsmuna að gæta. Við starfsfólk Orkuveitunnar bindum vonir við að nýtt skipulag vatnsverndar verði öflugt tæki til að standa vörð um þau náttúrugæði sem heilnæmt og ómeðhöndlað vatn er.

Verndun þess og ábyrg stýring er forsenda þess að Orkuveitan og aðrar vatnsveitur á höfuðborgarsvæðinu geti rækt skyldur sínar og fullnægt vatnsþörf á svæðinu til langrar framtíðar.




Skoðun

Sjá meira


×