Innlent

Gestur hnuplar af útilegumanni

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Tryggvi Hansen mundar forláta boga framan við kofaskrifli sen hann leitaði skjóls í er hann lét undan frostinu í tjaldinu.
Tryggvi Hansen mundar forláta boga framan við kofaskrifli sen hann leitaði skjóls í er hann lét undan frostinu í tjaldinu. vísir/vilhelm
„Það kom hér maður í heimsókn og þóttist vera vinur minn,“ segir Tryggvi Hansen sem í sumar hefur orðið fyrir barðinu á þjófi og skemmdarvargi í búðum sínum.

Tryggvi hefur haldið til í skóglendi í útjaðri Reykjavíkur. Lengstum dvaldi Tryggvi í tjaldi en kveðst á endanum hafa orðið leiður á því að vera alltaf í frosti og flutti sig þá yfir í leifarnar af gömlum sumarbústað á svæðinu. Þar hafi hann reyndar gefist upp líka vegna mikils sagga og flutt sig undir plasttjald.

Sumarið nýtir Tryggvi til að búa sig betur undir næsta vetur. Hann er einn þekktasti torfhleðslumaður landsins og nýtir kunnáttu sína. Hann er með egglaga byggingu í smíðum.

„Hér verður paradís í eina átt og siðmenningarstofa í aðra átt, það er sem sagt garður og búr og kot í smíðum,“ útskýrir Tryggvi sem býður fólki til sín að læra torfhleðslu. „Þeir læra um veggjagerð og viðarbygginguna inn í og þakið. Og líka um sögu torfbæjarins í gegnum aldirnar, frá hellum og borgum í skála og torfbæ.“

Að mati Tryggva ættu allir Íslendingar að læra að hlaða kot. „Stað þar sem aldrei frýs, þar sem alltaf eru fjórar gráður, jafnvel þótt skelli á ísöld,“ útlistar hann og bætir við að þeir sem komi á námskeið í grjót­röðun og byggingalist megi koma með timbur með sér. „Og hver sem ætlar að kasta viðum eða vill gefa við hingað er velkominn þakklátlega.“

Sem fyrr segir fékk Tryggvi óæskilega heimsókn á dögunum.

„Sumt hvarf og öðru var dreift hér yfir alla móa,“ segir Tryggvi sem kveðst hafa reiknað út að þjófurinn og skemmdarvargurinn sé maður sem heimsótti hann á dögunum og spilaði sig vinveittan en hafi reynst úlfur í sauðagæru. „Vonandi fæ ég ekki slíka heimsókn aftur.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. júlí


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×