Innlent

Gestir miðborgarinnar þurfa ekki að ganga meira en 350 metra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þeir sem hyggjast verslun og þjónustu í miðborgina þurfa ekki að ganga meira en mínútur lengur en þeir sem leggja bíl sínum við Kringluna.
Þeir sem hyggjast verslun og þjónustu í miðborgina þurfa ekki að ganga meira en mínútur lengur en þeir sem leggja bíl sínum við Kringluna. Vísir/ernir
Ökumenn sem hyggjast leggja bílum sínum í miðborg Reykjavíkur þurfa ekki að ganga meira en 350 metra til að komast í alla verslun og þjónustu á Laugavegi – þrátt fyrir sumarlokanir.

Til samanburðar geta gestir Kringlunnar búist við því að þurfa að leggja bíl sínum 210 metrum frá þeirri verslun sem þeir hyggjast sækja þangað.

Munurinn er 140 metrar, eða rúm mínúta á eðlilegum gönguhraða.

Þetta eru niðurstöður Björns Teitssonar upplýsingafulltrúa og Andra Gunnars Lyngberg arkítekts hjá Trípólí arkítektum. Þeir réðust í úttektina í kjölfar umræðunnar um sumarlokanir á Laugavegi en Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg hafa ítrekað lýst andstöðu sinni við hugmyndir um að hluta verslunargötunnar sé lokað fyrir bílaumferð í fimm mánuði í sumar eins og verið hefur undanfarin ár.

Björn og Andri benda hins vegar á að áhrif lokanna séu minni fyrir ökumenn sem hyggjast sækja þjónustu og verslun í miðbænum en marga hefði grunað.

Hér að neðan má sjá fjórar myndir, sem er samanburður á lengstu mögulegu göngufjarlægð sem einstaklingur þarf til að koma sér frá bílastæði að verslun – á Laugavegi annars vegar og í Kringlunni hins vegar.

Hér má sjá staðsetningu bílastæðahúsa í miðborginni og fjarlægð þeirra frá vöru og þjónustu við Laugaveg í mínútum talið.MYND/TRÍPÓLÍ
Á Laugarvegskortinu eru bílastæðahús miðborgarinnar merkt og standa stafirnir fyrir:

T: Traðarkotssund

B: Bergstaðarstræti

V: Vitastígur

S: Snorrabraut

„Eins og sjá má er hægt að komast í alla verslun og þjónustu á Laugavegi tiltölulega auðveldlega, en lengsta mögulega vegalengd sem þarf að ganga er 350 metrar. Það gæti til að mynda gerst myndi ökumaður leggja bíl við Bergstaðarstræti en þurfa að komast í verslun á horni Frakkastígs og Laugavegs. Þessi vegalengd er í um 3 mínútna fjarlægð á meðalgönguhraða,“ segir Björn.

Gestir Kringlunnar mega búast við að ganga í tvær mínútur frá bílastæðum á háannatímum.MYND/Trípólí
Sé þetta borið saman við Kringluna má sjá að lengsta mögulega vegalengd frá bílastæði að verslun er 210 metrar. Björn segir það til að mynda geta gerst ef ökumaður myndi leggja bíl í horni bílastæðis, hvort heldur norðan-eða sunnan vegna við Kringluna, en þyrfti að fara í Vínbúðina í Kringlunni.

Lengsta mögulega vegalengd sem þarf að ganga frá bílastæðahúsi að verslun á Laugavegi er 350 metrar.Mynd/Trípólí
Vilji ökumaður leggja bíl í horni bílastæðis Kringlunnar og versla í Vínbúðinni þarf hann að ganga 210 metra.Mynd/Trípólí
Þeir Björn og Andri telja niðurstöður úttektarinnar gefa til kynna að málflutningur Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg um að takmarkaður bílastæðafjöldi eða lengd bílastæða frá verslunum hafi slæm áhrif á viðskipti standist ekki.

„Munurinn á gönguvegalengd er einungis ein mínúta í versta falli. Að búast við að fá bílastæði við hlið verslunar á Laugavegi er eins og að búast við því að geta ekið bíl upp að verslun inni í Kringlunni miðri. Sem er augljóslega fjarstætt,“ segir Björn Teitsson upplýsingafulltrúi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×