Innlent

Gert ráð fyrir að fundað verði alla helgina

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá samstöðufundi sjómanna við húsakynni ríkissáttasemjara á mánudag. Boðað hefur verið til annars fundar næsta mánudag, í þetta sinn á Austurvelli.
Frá samstöðufundi sjómanna við húsakynni ríkissáttasemjara á mánudag. Boðað hefur verið til annars fundar næsta mánudag, í þetta sinn á Austurvelli. vísir/stefán
Samninganefndir sjómanna og útvegsmanna gera ráð fyrir að funda í kjaradeilunni alla helgina. Deilendur komu saman klukkan ellefu í morgun og sitja enn á fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara.

„Við erum að tala saman. Við getum sagt að það miði þannig að það er ekkert slitnað upp úr,“ segir Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands.

Eitthvað hefur þokast í samningaviðræðunum, en þó virðist nokkuð langt í land. Aukinn kraftur hefur hins vegar verið settur í viðræðurnar enda hafa sjómenn verið í verkfalli frá því um miðjan desember og farið er að bera á nokkurri gremju á meðal þeirra. Hafa þeir boðað til mótmæla, annan mánudaginn í röð.

Konráð segir það ábyrgðarhluta þeirra sem deila að sitja við samningaborðið þar til niðurstaða fæst. „Skilningur manna eykst eftir því sem við tölum meira og förum meira yfir málin,“ segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×