Erlent

Gert að greiða 850 þúsund vegna slyss í útsýnissiglingu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Tíu ára stúlka missti annan handlegginn eftir að hafa fallið á milli báts og bryggju.
Tíu ára stúlka missti annan handlegginn eftir að hafa fallið á milli báts og bryggju. vísir/getty
Ferðaþjónstufyrirtækinu Netto-Bådene, sem sér um útsýnissiglingar í Kaupmannahöfn í Danmörku, hefur verið gert að greiða tíu ára stúlku 50 þúsund danskar krónur, eða um 850 þúsund íslenskar krónur, í bætur vegna slyss sem hún varð fyrir um borð í bát fyrirtækisins árið 2014.

Stúlkan féll á milli bátsins og bryggju þar sem hún festi annan handlegginn. Áverkarnir urðu svo alvarlegir að fjarlægja þurfti handlegginn.

Héraðsdómur í Kaupmannahöfn komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði brotið öryggisreglur og dæmdi það því til þess að greiða stúlkunni bætur. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna í gær.

Fyrirtækið bar því við að um hafi verið að ræða einstakt atvik. Það hafi verið starfrækt í 25 ár og að á þeim tíma hafi ekkert sambærilegt komið upp.

Í kjölfar slyssins komu Netto-Bådene og fleiri fyrirtæki sem skipuleggja útsýnissiglingar upp öryggisgrindverkum við höfnina til þess að koma í veg fyrir frekari óhöpp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×