Enski boltinn

Gerrard þarf greiða frá Klopp | Fyrsti leikur hans sem þjálfara á Anfield um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard og Jurgen Klopp.
Steven Gerrard og Jurgen Klopp. Vísir/Getty
Steven Gerrard stýrir Liverpool í fyrsta sinn á Anfield á morgun en hann vonast eftir því að fá smá hjálp frá knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp.

Gerrard þarf nefnilega leyfi frá Klopp til að nota Ben Woodburn í leiknum sem er leikur í ensku bikarkeppni unglingaliða milli Liverpool og Arsenal.

Liverpool leyfði Steven Gerrard að færa leikinn inn á Anfield leikvanginn en leikurinn við Arsenal er í 4. umferð bikarkeppninnar. Næst á dagskrá er síðan að fá leyfið frá þýska stjóranum.

„Ég er ekki búinn að spyrja hann að þessu og enginn hefur talað um þetta við mig. Svo eins og staðan er núna þá er svarið nei. Það svar gæti kannski breyst á næsta sólarhring,“ sagði Steven Gerrard við Telegraph.





Jürgen Klopp þarf þá að taka ákvörðun um hvort hann ætli að nota Ben Woodburn á móti Swansea í ensku úrvalsdeildinni á mánudagskvöldið. Woodburn hefur ekki fengið margar mínútur en er engu að síður hluti að aðalliðinu. Það er enginn vafi á því að sigurlíkur unglingaliðs Liverpool myndu aukast mikið ef Ben Woodburn spilar í leiknum.

Steven Gerrard hefur staðið sig vel á sínu fyrsta ári sem þjálfari hjá Liverpool. „Ég elska það þegar leikmennirnir mínir fá tækifæri með aðalliðinu. Þá er ég stoltasti maðurinn í borginni. Ég er hinsvegar ekki búinn að taka þetta starf hjá félaginu einungis vegna þess,“ sagði Gerrard. Hann ætlar sér að vinna leiki og vinna titla og ná langt sem þjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×