Erlent

Gerðu upptækar 2,3 milljónir sígaretta og handtóku níu Búlgara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sígarettur og fjármunir sem lagt var hald á í Búdapest.
Sígarettur og fjármunir sem lagt var hald á í Búdapest. Myndir/Europol
Skatta- og tollayfirvöld í Ungverjalandi hafa með aðstoð Evrópsku lögregluskrifstofunnar (Europol) lokað mjög stórri og ólöglegri sígarettuverksmiðju nærri Búdapest. Um skipulagða glæpastarfsemi var að ræða og hafa níu Búlgarar verið handteknir en þeir sáu um rekstur verksmiðjunnar.

Hald var lagt á um 22 tonn af tóbaki og 2,3 milljónir sígaretta. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Ungverjalandi var um að ræða efni í 1,5 milljónir sígarettupakka.

Í tilkynningu frá Europol kemur fram að skipulagðir glæpahópar hafi miklar tekjur af ólöglegri sígarettuframleiðslu. Fjármagnið skilar sér svo iðulega í skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverk. Brot af þessu tagi eru því í forgangi að uppræta samkvæmt lögum Evrópusambandsins.

Ráðist var til atlögu gegn fyrrnefndri verksmiðju þann 2. febrúar og komu sex aðildarlönd Evrópusambandsins að verkefninu. Talið er að Evrópuríki hafi orðið af nærri 1600 milljörðum króna vegna ólöglegrar sígarettuframleiðslu árið 2013 ef marka má úttekt KPMG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×