Körfubolti

Gerðu Davis að launahæsta leikmanni NBA mínútu eftir að glugginn opnaði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Davis á að komast New Orleans alla leið.
Anthony Davis á að komast New Orleans alla leið. vísir/getty
Anthony Davis, kraftframherji New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í körfubolta, verður launahæsti leikmaður deildarinnar þegar hann skrifar formlega undir nýjan samning við félagið í næstu viku.

Leikmannamarkaðurinn í NBA-deildinni opnaði á miðnætti og var Davis boðinn nýi samningurinn á fyrstu mínútu félagaskiptagluggans.

Samningurinn er til fimm ára og tryggir Davis 145 milljónir dollara eða 19 milljarða króna. Hann fær 29 milljónir dollara á ári og verður sá launahæsti í deildinni sem fyrr segir.

Forráðamenn New Orleans og nýi þjálfarinn, Alvin Gentry, fóru til Los Angeles til að hitta Davis og bjóða honum nýja samninginn sem drengurinn samþykkti og þakkaði svo fyrir sig.

Hann lét stuðningsmenn New Orleans vita á Twitter að „hann væri rétt að byrja“ en nokkuð ljóst er að Davis verður ein af skærustu stjörnum deildarinnar á næstu árum.

Nákvæm tala á samningnum kemur í ljós þegar launaþakið verður endanlega hækkað á næsta ári, en Davis mun fá eins háan samning og mögulegt er, samkvæmt frétt ESPN. Davis skrifar undir samninginn 9. júlí.

Davis komst með New Orleans í fyrsta sinn í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð þar sem hann slóst í hóp með goðsögnum á borð við Kareem Abdul-Jabbar, Wilt Chamberlain og Bob McAdoo yfir einu mennina sem skoruðu 30 stig og tóku 10 fráköst í fyrstu fjórum leikjum sínum í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×