Enski boltinn

Gerði útslagið að komast ekki í Meistaradeildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
David Moyes hefur lokið störfum hjá Manchester United.
David Moyes hefur lokið störfum hjá Manchester United. Vísir/Getty
Christian Purslow, fyrrverandi framkvæmdastjóri Liverpool, segir að David Moyes hafi verið rangur maður á röngum tíma hjá Manchester United.

Skotinn var rekinn í dag, sléttu ári eftir að United vann 20. Englandsmeistaratitilinn, en liðið kemst ekki í Meistaradeildina og mun enda með fæst stig í sögu félagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Purslow var við störf hjá Liverpool þegar liðinu mistókst að komast í Meistaradeildina og þekkir vel til pressunnar sem fylgir því að vera ekki í þessari stærstu keppni álfunnar. Að komast ekki í hana spilaði stóra rullu í brottrekstri Moyes.

„Þegar United tapaði fyrir Everton á sunnudaginn var það tölfræðilega útilokað fyrir liðið að komast í Meistaradeildina en skilaboðin frá Glazer-feðgum voru að það væri lágmarkið,“ sagði Purslow við Sky Sports News í dag.

„United vann deildina með ellefu stiga mun í fyrra. Í verstu martröðum sínum gat þeim ekki hafa dottið í hug að það yrði ekki einu sinni með í Meistaradeildinni næsta vetur.“

„Þetta lið hefur endað í tveimur efstu sætum úrvalsdeildarinnar 18 sinnum á 21 tímabili í úrvalsdeildinni og aldrei endað neðar en í þriðja sæti. Ég er nokkuð viss um að enginn hafi búist við frammistöðu eins og liðið hefur sýnt á þessu tímabili.“

„Frá viðskiptalegu sjónarhorni - sem þetta allt snýst um - þá er félagið byggt í kringum það að vera að spila á þriðjudögum og miðvikudögum á þessum tíma ársins gegn Real Madrid, Barcelona og Bayern München. Styrktaraðilarnir búast við því og samningar leikmanna liðsins endurspegla það. Það sem er að gerast núna skaðar félagið,“ sagði Christian Purslow.


Tengdar fréttir

Klopp fer hvergi

Forráðamenn þýska liðsins Dortmund fulllyrða að Jürgen Klopp muni ekki fara frá félaginu til að taka við stjórn Manchester United.

Brottrekstur Moyes staðfestur

Manchester United hefur staðfest að félagið hafi sagt knattspyrnustjóranum David Moyes upp störfum.

Ár liðið frá síðasta titli United

Manchester United rak David Moyes úr starfi knattspyrnustjóra í dag, sléttu ári eftir að liðið tryggði sér sinn 20. Englandsmeistaratitil frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×