Innlent

Gera ráð fyrir 1.780 milljón króna hagræðingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Verðbólguspá Reykjavíkurborgar hefur verið lækkuð úr 4,9 prósentum í 3,2 prósent vegna verðbólguspár í þjóðhagsspá. Einnig var spá um gengisþróun og þróun launa breytt til samræmis við spána. Breytingarnar hafa í för með sér breytingar í tekju- og útgjaldaspá borgarinnar fyrir næsta ár.

Fjárhagsáætlun borgarinnar, sem og fimm ára áætlun, var lögð fram til seinni umræðu á fundi borgarstjórnar í dag. Umræðu um gjaldskrár var frestað til fundar borgarstjórnar þann 15. desember.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að gert sé ráð fyrir 1.780 milljóna króna hagræðingu á næsta ári. Rekstrarniðurstaða borgarinnar er jákvæð um 11 milljarða króna.

Þá kynnti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sameiginleg leiðarljós borgarráðs í þeirri hagræðingarvinnu sem framundan er. Þau eru: 

Grunnþjónusta: Staðinn verður vörður um grunnþjónustu við íbúa en leitað hagkvæmari leiða til að veita hana.

Gjaldskrár: Staðinn verður vörður um hagsmuni barnafjölskyldna. Gjaldskrám vegna þjónustu leikskóla, grunnskóla og frístund verður áfram stillt í hóf.

Starfsmenn: Fjöldi stöðugilda verði takmarkaður og hægt á nýráðningum eftir því sem kostur er.

Húsnæði: Stefnt verði að betri nýtingu húsnæðis og samnýtingu húsnæðis fyrir starfsemi og þjónustu borgarinnar, með uppsögn leigusamninga og fækkun fermetra í notkun.

Innkaup: Stefnt verði að aukinni hagkvæmni í innkaupum, með aukinni samræmingu, rammasamningum og notkun örútboða þvert á svið og stofnanir borgarinnar í þeim vöru- og þjónustuflokkum þar sem tækifæri eru til að ná fram sparnaði.

Sjálfstæðisflokkurinn segir að stanslaust óveður sé í rekstri borgarinnar. Þjónusta við aldraða, fatlaða og börn sé ógnað vegna sinnuleysis meirihlutans og að margt þurfi að ganga upp í rekstrinum til þess að fjárhagsáætlun næsta árs gangi upp.

Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins segir að „Nauðsynlegri vinnu við að taka á rekstri borgarinnar árið 2015 hefur verið ýtt yfir á næsta ár þrátt fyrir að fyrir löngu væri ljóst að reksturinn árið 2015 væri í alvarlegri stöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×