Lífið

Gera fæðinguna eitthvað til að hlakka til

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Guðrún Darshan segir meðgöngujóga meðal annars gera fæðinguna að einhverju til að hlakka til frekar en að kvíða.
Guðrún Darshan segir meðgöngujóga meðal annars gera fæðinguna að einhverju til að hlakka til frekar en að kvíða. Fréttablaðið/Anton
Jóga-og heilsustöðin Andartak ætlar í fyrsta sinn á Íslandi að standa fyrir kennaranámi í meðgöngujóga. Guðrún Darshan er einn af kennurunum en hún segir námið byggt upp sem ferðalag móðurinnar, sem hefst við getnað og lýkur 40 dögum eftir fæðingu.

"Jóga er orðið venjulegt hugtak á Íslandi sem er ánægjulegt. Flestir hafa stundað, eða þekkja einhvern sem stundar, jóga,“ segir Guðrún Darshan jógakennari en í fyrsta sinn á Íslandi ætlar Jóga- og heilsustöðin Andartak að bjóða upp á kennaranám í meðgöngujóga.

Meðgöngujóga er vinsælt meðal barnshafandi kvenna en námskeiðið verður byggt upp sem ferðalag móðurinnar, frá getnaði til 40 dögum eftir fæðingu.

„Verið er að kenna konum að tengja við líkama sinn, vera meðvitaðar um eigin styrk og nota hann í fæðingunni. Fara inn í sársaukann og anda. Einnig erum við að fjalla um manneskjuna í tengslum við þetta andlega ferðalag í kringum barnsburð. Eins og til dæmis samskipti kynjanna sem er mikilvægt og að finna kyrrðina,“ segir Guðrún og segir jóga öfluga leið til að undirbúa konu fyrir fæðinguna sjálfa.

„Eitt af markmiðum með meðgöngujóga er að gera fæðinguna að einhverju til að hlakka til frekar en að kvíða.“

Námskeiðin eru fyrst og fremst ætluð til að undirbúa nemendur með þekkingu og tækni sem auðveldar þeim að kenna barnshafandi konum kundalini-jóga og hugleiðslu. Guðrún segist finna fyrir miklum áhuga á náminu en jóga og hugleiðsla á meðgöngu getur haft áhrif á móður sem barn.

„Ég vil meina að jóga sé einnig hollt til að byggja mæður upp andlega í kringum barnsburð en rannsóknir sýna að jóga getur líka haft áhrif á barnið, og tengsl móður og barns. Margar konur glíma til dæmis við lágt sjálfsmat meðan á meðgöngu stendur og jóga og hugleiðsla getur hjálpað við það. Það má því segja að jóga sé grunnur að betra samfélagi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×