Erlent

Gera árásir frá herstöð í Íran

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússnesk herþota varpar sprengjum yfir Sýrlandi.
Rússnesk herþota varpar sprengjum yfir Sýrlandi. Vísir/AFP
Varnarmálaráðuneyti Rússlands tilkynnti í dag að gerðar hefðu verið loftárásir í Sýrlandi frá herstöð í Íran. Þetta er í fyrsta sinn sem Rússar gera árásir frá Íran síðan þeir hófu aðgerðir sínar í Sýrlandi í fyrra. Íranar hafa veitt stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, gífurlegan stuðning í átökunum þar í landi sem staðið hafa yfir frá árinu 2011.

Rússar segjast hafa gert árásir á vopnageymslur, stjórnstöðvar og þjálfunarbúðir. Notkun herstöðvarinnar í Íran gerir flugvélum Rússa kleift að bera fleiri sprengjur en annars, þar sem hún er stödd í mikilli hæð yfir sjávarmáli.

Samkvæmt BBC voru árásir gerðar í Aleppo, Idlib og Deir al-Zour. Heimamenn segja að minnst 19 almennir borgarar hafi fallið í árásunum. Þá er sagt frá því að embættismenn í Rússlandi og Íran hafi á undanförnum mánuðum rætt sín á milli um að auka samstarf ríkjanna í hernaði.

Enn búa um ein og hálf milljón manns í borginni Aleppo og þar af um 250 þúsund á yfirráðasvæði uppreisnarmanna. AFP fréttaveitan segir að Sameinuðu þjóðirnar óttist um öryggi íbúa borgarinnar. Kallað hefur verið eftir því að þeim verði komið til hjálpar eins fljótt og auðið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×