Erlent

Georgieva dembir sér í baráttuna um starf Ban Ki-moon

Atli Ísleifsson skrifar
Kristalina Georgieva.
Kristalina Georgieva. Vísir/AFP
Kristalina Georgieva, framkvæmdastjóri fjárlaga hjá Evrópusambandinu, hefur ákveðið að demba sér í baráttuna um að verða arftaki Ban Ki-moon í starfi aðalritara Sameinuðu þjóðanna.

„Til teljum að þetta verði árangursríkt framboð,“ segir Bojko Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, en Georgieva er fulltrúi Búlgaríu í framkvæmdastjórn ESB.

Hin 63 ára Georgieva hefur fengið heimild til að taka sér mánuð frá störfum sem framkvæmdastjóri til að einbeita sér að baráttunni. Hún starfaði innan Alþjóðabankans um árabil áður en hún hóf störf hjá ESB.

Irina Bokova, yfirmaður Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), hafði áður notið stuðnings búlgarskra stjórnvalda í baráttunni, en framboð hennar virðist ekki hafa notið mikillar hylli og hefur Búlgaríustjórn nú dregið stuðning sinn við framboð Bokovu til baka.

Antonio Guterres, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals, þykir enn líklegastur til að verða næsti aðalritari Sameinuðu þjóðanna, en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hélt sína fimmtu óformlegu atkvæðagreiðslu á mánudag um hvern ráðið ætti að tilnefna. Enn hefur þó ekki tekist að ná samstöðu. Öryggisráðið mun að lokum tilnefna fulltrúa sem Allsherjarþingið mun greiða atkvæði um.

Ban mun láta af störfum í árslok.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×