Enski boltinn

Geoff Hurst: Mest spennandi enska landsliðið frá HM 1966

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Smalling mætti með lukkudýrið með sér til Frakklands.
Chris Smalling mætti með lukkudýrið með sér til Frakklands. Vísir/Getty
Englendingar eru þekktir fyrir að byggja upp væntingar sinnar þjóðar fyrir stórmót í fótbolta og það lítur út fyrir að sumarið í ár verði þar engin undantekning.

Sir Geoff Hurst er einn af hetjum Englendinga frá HM 1966 þegar enska landsliðið vann sitt eina stórmót. Á þessum 50 árum sem eru liðin síðan þá hefur enska landsliðið upplifað hver vonbrigðin á fætur öðru.

Sir Geoff Hurst skoraði þrennu í úrslitaleiknum á HM 1966 sem fram fór á Wembley en þar var enska liðið 4-2 sigur á Þýskalandi eftir framlengdan leik.

Hurst hrósar enska liðinu í dag í viðtali við BBC. „Þetta er mest spennandi enska landsliðið síðan 1966. Leikmenn eins og Dele Alli hafa komið inn í liðið og lífgað mikið upp á þetta," sagði hinn 74 ára gamli Geoff Hurst sem er sérstaklega ánægður með þennan unga leikmann Tottenham.

„Hann spilaði, líka í vináttulandsleikjunum, eins og þetta væri úrslitaleikur HM," sagði Geoff Hurst sem er sá eini sem hefur skorað þrennu í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar. Hann fékk þó ekki að upplifa það að spila til úrslita á EM því enska liðið tapaði fyrir Júgóslavíu í undanúrslitum Evrópumótsins 1968 og komst ekki í úrslitakeppnina fjórum árum síðar.

Dele Alli er einn af mörgum ungum leikmönnum enska landsliðsins en liðið er það yngsta á Evrópumótinu í Frakklandi og meðalaldur þess eru bara 25 ár. Þetta er því svo sannarlega framtíðarlið og EM í Frakklandi gæti vissulega verið upphafði að einhverju meira.

Enska landsliðið flaug til Parísar í gær og mun hafa höfuðstöðvar sínar rétt norðan við borgina. Fyrsti leikur liðsins er síðan á móti Rússum á laugardaginn en enska liðið er einnig með Wales og Slóvakíu í riðli.

Enska landsliðið flaug til Frakklands í gær.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×