Handbolti

Gensheimer um Dag: Hugrakkur og klár þjálfari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Uwe Gensheimer, fyrirliði Þýskalands, missti af EM í upphafi árs vegna meiðsla en er kominn aftur inn í þýska liðið.
Uwe Gensheimer, fyrirliði Þýskalands, missti af EM í upphafi árs vegna meiðsla en er kominn aftur inn í þýska liðið. vísir/getty
Uwe Gensheimer, fyrirliði þýska landsliðsins í handbolta, missti af EM í byrjun ársins en er nú aftur kominn inn í þýska liðið sem er komið í undanúrslit á ÓL í Ríó.

„Það er gott að vera kominn aftur inn í liðið. Það var erfitt fyrir mig að horfa á liðið vinna á EM því ég vildi vera inni á vellinum sem fyrirliði liðsins en ekki á hliðarlínunni,“ segir Gensheimer og hann er ánægður með íslenska þjálfarann.

„Þegar þú spilar fyrir Dag þá veistu alltaf við hverju er að búast frá mótherjanum. Hann er virkilega klár þjálfari og á alltaf svör á móti mismunandi taktík hjá mótherjunum,“ segir Gensheimer.

„Hann er líka hugrakkur og duglegur að koma inn með nýja hluti. Það sýndi hann til dæmis á Evrópumeistaramótinu. Það er gaman að spila fyrir hann. Hann er alltaf með leikaðferðina í hausnum og missir aldrei einbeitinguna,“ segir Gensheimer.

„Það er frábært að vera hérna á Ólympíuleikunum enda eru allir í okkar liði hér í fyrsta sinn. Það er síðan enn betra að það gangi svona vel. Allir leikmenn liðsins ætluðu sér að komast í leikina um verðlaun. Við ræddum það og höfum verið einbeittir á markmiðið okkar,“ segir Uwe Gensheimer.


Tengdar fréttir

Fáum við íslenskan úrslitaleik?

Dagur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson eru komnir með lið sín í undanúrslit á Ólympíuleikunum í Ríó og vinni Þýskaland og Danmörk leiki sína í dag mætast þeir í úrslitaleiknum á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×