Innlent

Gengið í skrokk á manni á Stórhöfða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Stórhöfða í Reykjavík.
Frá Stórhöfða í Reykjavík. Vísir/Valgarður
Töluvert var um ölvun á höfuðborgarsvæðinu í nótt og þurfti lögreglan að hafa margvísleg afskipti af fólki sem hafði komist í hann krappan vegna drykku.

Þannig var maður til vandræða við Hlemm á níunda tímanum í gærkvöldi og var hann vistaður í fangageymslu þar til ástand hans yrði betra. Ekki er nánar rekið í dagbókarfærslu lögreglunnar hvað hann hafði sér til saka unnið. Að sama skapi var ölvaður maður handtekinn í Austurstræti laust eftir klukkan 1 í nótt. Var hann einnig vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Ráðist var á ungan mann laust fyrir klukkan 3 í nótt á Stórhöfða í Reykjavík. Að sögn lögreglunnar var honum ekið á slysadeild til aðhlynningar en ekki liggur fyrir um áverka mannsins.

Þá voru í það minnsta sex stútar teknir úr umferðinni, þar á meðan einn í Hafnarfirði sem var sviptur ökuréttindum á staðnum. Hann var handsamaður laust eftir klukkan 22 í gærkvöldi.

Ungur maður var handtekinn í Hafnarfirði á þriðja tímanum í nótt grunaður um eignaspjöll. Ekki er nánar reifað í hverju þau fólust en maðurinn var vistaður í fangageymslu.

Þá var tilkynnt um innbrot í félagsaðstöðu við Nauthólsveg en að sögn lögreglunnar er ekki vitað hverju var stolið að svo stöddu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×