Lífið

Gekk í gegnum erfiðan tíma sjálfshaturs

Sveinn Arnarsson skrifar
Maria Hjarðar segir mikilvægast að elska sjálfan sig og hætta að láta samfélagið stjórna því hvernig maður horfir á sinn eigin líkama
Maria Hjarðar segir mikilvægast að elska sjálfan sig og hætta að láta samfélagið stjórna því hvernig maður horfir á sinn eigin líkama Mynd/aðsend
„Mér finnst alls ekki nógu mikið um það að konur kunni að meta líkama sína og finnist þær sjálfar flottar og æðislegar. Glansmyndir af líkömum og andlitum kvenna gefa upp ranga mynd af raunveruleikanum sem mér finnst sorglegt,“ segir María Hjarðar, nemi í Menntaskólanum á Egilsstöðum og formaður femínistafélags skólans. Hún segist hafa gengið í gegnum erfiðan tíma sjálfshaturs vegna hugmynda sinna um eigin líkama þar sem ásýnd hans sé á skjön við þá ímynd sem birtist í ljósvakamiðlum á hverjum degi.

Hún ákvað að birta myndir af sér á Twitter undir myllumerkinu #minnlíkami til að stuðla að jákvæðri hugsun.  Hún hafi verið þjökuð sjálfshatri lengi en að nú sé mál að linni og að hún þurfi að upphefja líkama sinn til að líða vel. „Tilgangurinn með tístinu mínu og öllum mínum sjálfselskunarároðri er og var aðallega að losa sjálfa mig úr fjötrum sjálfshaturs. Þetta hefur lengi legið á hjarta mínu og mér finnst gott að geta losað um. Ég mun alltaf halda áfram að elska mig og kynnast sjálfri mér á nýjan og betri hátt. Það er stórkostlegt frelsi fólgið í því að elska sig og ná að elska sig þrátt fyrir hvað öðrum finnst og hvað aðrir segja,“ segir María Hjarðar.

Stolt af eigin líkama

Á venjulegum degi fá íslensk ungmenni aragrúa skilaboða í gegnum auglýsingar, samfélagsmiðla, tónlistarmyndbönd, sjónvarpsþætti, bíómyndir og áfram mætti telja, um hvernig líkaminn lítur út. Ofast nær eru þær hugmyndir ekki í takt við raunveruleikann. Líkamsmynd fólks er fjölbreytt og mismunandi. 

„Hvort sem við vitum það eða ekki erum við sífellt að bera okkur saman við aðra og mér finnst mikilvægt að við tökum eftir þessari hegðun sem er niðurbrjótandi fyrir okkur sjálf,“ segir María. Aftur á móti bendir María á að þó hún sé glöð með vöxt sinn í dag eigi aðrir auðvitað að vera glaðir með sinn vöxt þó hann sé allt öðruvísi. Um það snúist málið, að elska líkama sinn eins og hann lítur út.

„Það að vera ánægður með líkamann sinn þýðir ekki að maður finnist maður endilega vera fullkominn og maður þurfi ekkert að gera í heilbrigði sínu. Stór partur af því að vera heilbrigður er að hafa heilbrigða sýn á sjálfum sér. Heilbrigt útlit er líka mjög afstætt. Bara afþví að ég er feit gella sem að elska sjálfa mig þýðir það ekki að ég sé að hvetja alla til þess að fita sig og þá megi þeir elska sig. Síður en svo. Ég er ekki að hvetja fólk til þess að lifa óheilbrigðum lífsstíl þótt að ég sé opin með það að ég elski sjálfa mig. Það er algengur misskilningur.“

María HjarðarMynd/Úr einkasafni
Margir þakkað henni fyrir

María er alls ekki sú eina sem hefur glímt við þann vanda að vera ósátt við sinn líkama. Fjöldi einstaklinga greinist á ári hverju með átröskunarsjúkdóma hverskonar. Orsök þeirra má oft finna í erfiðum útlitskröfum samfélagsins. Hún segir einnig það ómetanlegt að geta hjálpað fólki sem er ósátt við eigið útlit og segir fjölda fólks hafa rætt við hana.

„Fólk hefur komið að mér og sagt við mig að ég hafi hjálpað því að elska sjálft sig. Það er ekkert sem gerir mig jafn glaða og þegar ég heyri að ég hafi haft áhrif á sjálfsmynd annarra með því einu að vera ég sjálf og skammast mín ekki fyrir það. Það er ómetanleg tilfinning,“ segir María. Einnig segir hún viðbrögðin við tístinu hafa verið mjög góð þrátt fyrir að nokkrir hafi gert grín að þessu.

„Þau hafa að mestu verið mjög jákvæð. Ég er mikið í því að umkringja mig fólki sem að hjálpar mér að verða betri manneskja og hinir verða bara eftir. Hef tekið eftir því að einhverjir hafi að vera að deila þessu áfram til þess að gera grín að því, en ég læt það ekki á mig fá.“

Fáklæddar myndir gefa sjálfstraust

María segir það mikilvægasta í bataferli hennar að gera hluti sem lætur mann líða vel og að klæða sig nákvæmlega eins og þú vilt. Einnig nefnir hún að sjálfsmyndatakan hafi hjálpað henni mikið og þá sérstaklega af sér fáklæddri.

„Klæddu þig eins og þér finnst fötin þín fara þér geðveikt vel. Taktu flottar myndir af sjálfum þér, skoðaðu þær og elskaðu þær. Taktu tíma með sjálfum þér þar sem þú hlúir að sjálfum þér og engu öðru. Þú átt það skilið og þér mun líða betur fyrir vikið,“ segir María.

„Það hefur hjálpað að taka fáklæddar myndir af mér, það hefur gefið mér mesta sjálfstraustið. Það tekur tíma að læra að meta hvert horn af sjálfum sér  og það er að koma hægt og rólega hjá mér þó ég sé ekki kominn þangað ennþá. Fáklæddar myndir hjálpa til við það. Þú þarft ekkert að sýna öðrum heldur nota í bataferlinu fyrir sjálfan þig.“

„Það hefur hjálpað að taka fáklæddar myndir af mér, það hefur gefið mér mesta sjálfstraustið.“ segir María.
Steig út fyrir þægindarammann

María segir þetta ferli hafa verið erfitt en um leið skemmtilegt því nýtt líf hafi opnast fyrir henni. Við gerum of mikið í því að rakka okkur sjálf niður og tími sé kominn til að láta útlits-standarda fjúka út í veður og vind og hjálpa sér og öðrum úr þessum vítahring. „Þú ert þinn versti óvinur, og á móti, ef þú leyfir þér það og ræktar það þannig, þá getur þú verið þinn langbesti vinur.“ segir María.

„Það er kominn tími til þess að við, í samfélagi sem að segir okkur að hata okkur sjálf, mótmælum og elskum okkur. Það er stór partur af því að læra að elska sjálfan sig er að stíga út fyrir þægindarammann. Það að taka af sér myndir reglulega gæti verið partur af því. En aðal málið er að finna litlar leiðir til þess að kynnast sjálfum sér og líkama sínum og læra að meta hann. Hvort sem partur af því er að taka myndir eða ekki.“


Tengdar fréttir

Fær morðhótanir fyrir að vera feit

Ragen Chastain vill vekja athygli á misrétti sem feitt fólk verður fyrir. Hún lifir heilbrigðu lífi og hefur meðal annars gengið heilt maraþon í hellidembu og skítakulda til að sigrast á eigin takmörkum.

Upplifði fitufordóma úr ýmsum áttum

Ragnheiður M. Kristjónsdóttir, þýðandi og fyrrverandi blaðamaður, segist hafa fundið fyrir fitufordómum þegar hún var þyngri en hún er í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×