Lífið

Geislabyssa Hans Óla seldist á rúma hálfa milljón dollara

Kjartan Kjartansson skrifar
Ófár geimverur fengu að kenna á geislabyssu Hans Óla í Stjörnustríði.
Ófár geimverur fengu að kenna á geislabyssu Hans Óla í Stjörnustríði. Vísir/Getty
Byssan sem Harrison Ford mundaði í hlutverki sínu sem Hans Óli í einni af upprunalegu Stjörnustríðsmyndunum seldist á uppboði í New York fyrir 550.000 dollara í gær. Kaupverðið var enn hærra en það sem fékkst fyrir geislabyssu Loga geimgengils.

Leikmunurinn er að mestu leiti úr viði. Hann var notaður í þriðju mynd upphaflega þríleiksins, „Jedinn snýr aftur“. Geislabyssan hefur verið í eigu James Schoppe, listræns stjórnanda myndarinnar, undanfarin þrjátíu ár, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Schoppe var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir myndina.

Geislabyssa Loga geimgengils, sem Mark Hamill túlkaði, seldist á 450.000 dollara. Fjörutíu aðrir Stjörnustríðsmunir úr safni Schoppe voru einnig seldir á uppboðinu, þar á meðal öxi Ewoka og teikning að skipi Jabba Hutt.

Dýrasti Stjörnustríðsgripur sem selst hefur var hins vegar R2-D2-vélmenni sem var notað í nokkrum myndanna. Það fór á 2,7 milljónir dollara á uppboði í Los Angeles í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×