Handbolti

Geir og Kristján réttu mennirnir fyrir landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir Sveinsson og Kristján Arason.
Geir Sveinsson og Kristján Arason. Vísir
Staða Arons Kristjánssonar sem landsliðsþjálfari Íslands er í uppnámi eftir að Ísland féll úr leik á EM í Póllandi í gær.

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður, var í viðtali á Bítinu á Bylgjunni í morgun og telur að HSÍ þurfi að taka þjálfaramál sín til endurskoðunar. Hann hefur skoðun á því hverjir eiga að taka við starfinu ef Aron stígur til hliðar.

„Ég veit um tvo menn sem gætu tekið við landsliðinu. Það eru Kristján Arason og Geir Sveinsson. Ég sé enga aðra kandídata í þetta starf. Það er bara mín persónulega skoðun.“

Hann segist ekki sjá fyrir sér að erlendur þjálfari verði ráðinn enda dýrt og óvíst hvort að HSÍ hafi efni á því.

Sjá einnig: Guðjón: Var tímabært að skipta um þjálfara eftir HM í Katar

Spurður hvort að það væri möguleiki á að fá Guðmund Guðmundsson, Alfreð Gíslason eða Dag Sigurðsson til að taka við íslenska landsliðinu reiknaði Guðjón ekki með því, enda menn sem eru skuldbundnir annars staðar.

Guðjón var einnig spurður um næstu kynslóðir og segir hann að það séu leikmenn að koma upp sem gætu tekið við keflinu síðar.

„En það mun taka tíma - tvö og hálft ár - að koma þeim fyrir í landsliðinu og þá verðum við aftur í fremstu röð. Svo eru líka leikmenn í liðinu sem eru á mjög góðum aldri og eru mjög sterkir. Þeir munu draga vagninn fyrir okkur næstu árin.“

„Við eigum stráka sem eru á þröskuldinum og það verður væntanlega verkefni nýrra manni til að koma þeim fyrir í liðinu. Þá er ég sannfærður um að við munum eignast lið í fremstu röð en þetta verður býsna erfitt og sársaukafullt þangað til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×