Innlent

Geir fékk tveggja mánaða laun í bónus á meðan aðrir fengu einn mánuð

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Geir Þorsteinsson.
Geir Þorsteinsson. Vísir/AFP
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, fékk tveggja mánaða laun greidd í bónus fyrir árangur karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi.

Annað starfsfólk KSÍ, sem vann í Frakklandi, fékk einn mánuð greiddan í bónus. Þetta hefur Fréttablaðið fengið staðfest innan raða KSÍ.

KSÍ greiðir ekki yfirvinnu en sökum vinnuálags í tengslum við EM í Frakklandi var samþykkt að greiða starfsfólki sambandsins aukamánuð.

Á stjórnarfundi KSÍ í ágúst var borin fram tillaga fjárhagsnefndar sambandsins þess efnis að Geir fengi greiðslu líkt og aðrir starfsmenn en tillagan hljómaði upp á tvo mánuði sem nefndin samþykkti.

„Greiðslur starfsmanna, leikmanna og mín eru trúnaðarmál. Ég get ekki staðfest eitt né neitt og sérstaklega ekki mín laun,“ segir Geir og bætir við að á ársþingi KSÍ í febrúar muni koma meiri upplýsingar um skiptingu bónusgreiðslna fyrir EM.

Fyrir að komast í átta liða úrslit fékk KSÍ rúma tvo milljarða í verðlaunafé frá UEFA. Leikmenn fengu sinn skerf, starfsfólk aukamánuð, Geir fékk tvo mánuði greidda og aðildarfélög innan KSÍ fengu um 400 milljónir.

Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, hefur gagnrýnt greiðslur til formannsins. Fréttablaðinu hefur reynst erfitt að fá nefndarmenn fjárhagsnefndarinnar og aðra formenn knattspyrnudeilda til að tjá sig um málið. KSÍ fær 33 milljónir frá ÍSÍ í styrki og sex milljónir frá getraunum á þessu ári samkvæmt fjárhagsáætlun sambandsins.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Landsliðið fékk um tvo milljarða fyrir árangur sinn á EM í Frakklandi.

Tengdar fréttir

Gert var ráð fyrir auknum launakostnaði

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir að sambandið hafi reiknað með auknum launakostnaði í kringum Evrópumótið í fótbolta hvort sem það yrðu ráðnir fleiri starfsmenn eða núverandi starfsmenn fengju aukamánuð greiddan vegna álags sem fylgdi mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×