Fótbolti

Geir: Var farinn að óttast um framhaldið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Infantino þakkar fyrir kosninguna í dag.
Infantino þakkar fyrir kosninguna í dag. Vísir/Getty
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, var gríðarlega ánægður með niðurstöðuna í forsetakjöri Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, í dag en þá var Gianni Infantino kjörinn forseti.

Infantino hlaut hreinan meirihluta atkvæða í annarri umferð kosningarinnar eftir að hafa verið með naumt forskot á Sjeik Salman, forseta knattspyrnusambands Asíu, eftir fyrstu umferðina.

Sjá einnig: Infantino kjörinn forseti FIFA

Síðustu daga og vikur töldu margir að Salman væri líklegri til að vinna kosninguna vegna víðtæks stuðnings sambandsaðila í Afríku og Asíu. Geir segir að hann hafði áhyggjur af því.

„Ég leyfði mér að vera ekki of bjartsýnn [fyrir hönd Infantino] en síðustu daga hef ég fundið fyrir góðum straumum,“ sagði Geir í samtali við Vísi en hann lýsti því yfir í viðtali við Fréttablaðið í síðasta mánuði að hann myndi styðja Infantino.

Sjá einnig: Infantino: Setjum knattspyrnuna í forgrunn

„Ég óttaðist framhaldið hefði Salman unnið. Það hefði ekki hjálpað FIFA sem hefði áfram þurft að sitja undir ýmis konar gagnrýni.“

Hann segir að Infantino sé hárrétti maðurinn til að endurreisa traust FIFA, sem hefur verið plagað af spillingarmálum síðustu ár, út á við. „Hann er maður framkvæmda. Það hefur hann sýnt sem framkvæmdastjóri UEFA. Hann kemur málum áfram.“


Tengdar fréttir

Infantino kjörinn forseti FIFA

Gianni Infantino hafði betur gegn Sjeik Salman, forseta knattspyrnusambands Asíu, í annarri umferð kjörsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×