Innlent

Gefa of mikinn afslátt af öryggi í fjallaferðum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Árni Tryggvason, fjallgöngumaður.
Árni Tryggvason, fjallgöngumaður. Mynd/Árni
„Of oft eru aðilar með of litla kunnáttu að taka að sér fararstjórn í ferðum gönguhópa,“ segir Árni Tryggvason fjallaleiðsögumaður. Hann telur marga fararstjóra gefa of mikinn afslátt af öryggi í fjallgöngum.

„Það er ekki nóg að hafa fararstjóra sem hefur bara sjálfstraustið og ánægjuna af fjallaferðunum. Engu að síður eru fjölmargir mjög hæfir aðilar sem fara með fólk á fjöll. Hinir eru bara of margir,“ segir Árnir. Allt of mikið vanti upp á öryggisviðmið.

„Þeir sem eru í þessu af fullri alvöru, til dæmis í björgunarsveitum eða Alpaklúbbnum, fara eftir mjög ströngum reglum. Til dæmis er algjör regla að ef gengið er á fjöll að vetrarlagi er maður með brodda, ísöxi og snjóflóðabúnað. Þetta áhugasama fólk í gönguhópunum veit fæst hvað snjóflóðabúnaður er,“ segir Árni.

„Góður fararstjóri þarf að hafa alla tækni á hreinu varðandi notkun brodda, ísaxar og snjóflóðabúnaðar. Auk rötunar- og skyndihjálparkunnáttu. Allir þeir sem með þeim fara á fjöll þurfa að hafa þann sama búnað og kunnáttuna til að nota hann en fararstjóri þarf að vera stigi ofar,“ segir hann.

Að mati Árna ber mikið á því að hópar noti keðjubrodda sem hannaðir séu fyrir tuttugu gráðu bratta þótt gengið sé í mun meiri bratta.

„Ég get rakið lista af slysum vegna keðjubrodda. Þeir gefa fólki traust til að fara í meiri bratta en það ræður við og svo rennur það og er kannski ekki með ísöxi. Ef það hefur ekki ísöxina getur það ekki stöðvað sig,“ segir hann.

Þegar Árni hefur bent á vandamálið segir hann suma hafa tekið gagnrýninni illa og notað það sér til varnar að hafa gengið á fjöll í mörg ár með þess lags búnað án þess að lenda í slysi. Árni líkir því við að keyra beltislaus og segir það heppni að ekki verði slys.

Þá segir Árni að hugsanlega megi rekja slysið á Skarðsheiði síðastliðinn laugardag, þar sem par rann hundrað metra niður fjallið og maður slasaðist alvarlega, til notkunar keðjubrodda og vanmats á aðstæðum.

Halli nokkurra þekktra fjallshlíða yfir þeim tuttugu gráðum sem keðjubroddar eru ætlaðir fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×