Lífið

Gefa fjölbreyttum hóp færi á að tjá sig um jafnréttismál

Guðný Hrönn skrifar
Nú styttist í að bókin Forystuþjóð eftir þær Eddu Hermannsdóttur og Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur komi út en bókin hefur verið í um ár í bígerð. Um viðtalsbók um jafnréttismál er að ræða þar sem lögð er áhersla á að birta frásagnir fjölbreytts hóps.

Í bókinni Forystuþjóð eftir Ragnhildi Steinunni og Eddu Hermannsdóttur er að finna viðtöl við bæði karla og konur þar sem ýmsir vinklar á jafnréttismálum eru teknir fyrir. „Hugmyndin var að fá fleiri karlmenn inn í umræðuna og að fá fjölbreyttar skoðanir. Hingað til hefur þetta nefnilega verið svolítið einsleit umræða. Og þær skoðanir sem eru kannski ekki pólitískt réttar hafa ekki komist að, þess vegna er skemmtilegt að fá fleiri raddir að borðinu,“ segir Edda. 

Í bókinni er að finna viðtöl við þrjátíu valinkunna íslendinga. „Viðmælendur bókarinnar koma úr öllum áttum og hafa ólíkar skoðanir á jafnréttismálum. Aldursbilið er breytt og kynslóðabilið víða greinanlegt. Þetta er málefni sem við flest virðumst vera sammála um, að hérna eigi að ríkja jafnrétti, en hvers vegna tekur þetta svona langan tíma? Hvers vegna höfum við ekki náð takmarkinu?“ spyr Ragnhildur Steinunn. „Það er ekki nóg að aðhyllast jafnrétti en byrja svo ekki hjá sjálfum sér eða í eigin fyrirtæki”.

 

Í bókinni er að finna viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur sem hefur barist ötullega fyrir jafnréttismálum.Mynd/Íris Dögg
Aðspurð nánar út í hópinn sem kemur að bókinni segir Ragnhildur hann vera ákveðinn þverskurð úr samfélaginu. „Þetta eru ráðherrar, listamenn, forstjórar stórra fyrirtækja og allt þar á milli. Við vildum frá raddir út öllum áttum því atvinnugreinarnar eru vissulega komnar mislangt á veg í jafnréttismálum.“

Edda segir margar spennandi sögur vera að finna í bókinni. „Við vildum ná fram sögum sem höfðu ekki heyrst áður í umræðunni. Þetta eru einlægar frásagnir, ýmist persónulegar reynslusögur eða einhverjar hugmyndir sem fólk hefur, gjarnan róttækar. Við erum t.d. með viðmælanda í bókinni í bókinni sem talar um að konur eigi frekar að vera í mýkri störfum, að líffræðilegi munur kynjanna sé til þess fallinn að konur séu betri í einu á meðan karlar séu betri í öðru. Svo erum við með kvenkyns forstjóra sem segir frá því að samskiptaáætlun fyrirtækisins sem hún starfar hjá sé miðuð að því að hún komi ekki fram fyrir hönd fyrirtækisins, það sé talið skaða ímynd og viðskipti fyrirtækisins.“

Spurðar hvort allir sem þær höfðu samband við á sínum tíma hafi veri til í að koma í viðtal svara þær játandi. „Já, að lokum en það var erfitt að fá suma. Þarna eru kannski karlar sem hafa aldrei tjáð sig opinberlega um jafnrétti kynjanna. Og þetta er, fyrir ákveðinn hóp, eldfimt svæði að stíga inn á vegna þess að það hefur kannski ekki verið svigrúm fyrir öll viðhorfin,“ útskýrir Ragnhildur.

 

Í bókinni er að finna viðtal við Frosta Ólafsson.Mynd/Íris Dögg
Ragnhildur og Edda eru þeirrar skoðanir að misrétti kynjanna sé rótgróið vandamál. „Við erum vissulega komin langt í baráttunni en það vantar enn þá eitthvað upp á og við getum ekki sætt okkur við það. 41 ári eftir að konur tóku Kvennafrídaginn í fyrsta sinn þá skundum við enn þá á Austurvöll og hrópum. Ég ætla að vona að ég standi ekki á Austurvelli eftir 10 ár með dóttur mína, með sama skiltið og hlusti á sömu köllin,“ segir Ragnhildur.

Edda tekur í sama streng. „Svo eru það þessar hindranir sem við setjum sjálfar upp ómeðvitað. Við konur væntum þess gjarnan að fá lægri laun en karlar, strax þegar við útskrifumst. Af hverju er það? Af hverjum semjum við öðruvísi en karlar um laun? Þarna er eitthvað sem við konur ættum að læra af körlunum, að gera þetta betur. Þeir eru oft miklu harðari en við í þessu,“ segir Edda.„Ég gleymi því ekki, einu sinni þegar ég var að fara í launaviðtal þá var sagt við mig: „mundu að vera auðmjúk“. Er það einhver ráðlegging sem karlar fara með inn í launaviðtal? Þó svo að maður eigi auðvitað að vera auðmjúkur í lífinu þá eru þetta ekki endilega skilaboðin sem maður á að fara með í samningaviðræður,“ rifjar Edda upp.

Því fólki sem kom í viðtal í bókina lá mikið á hjarta að sögn þeirra Eddu og Ragnhildar. „Já, fólk hefur mikið að segja þegar það byrjar að tala um þessi mál. Það gerir sér allir grein fyrir að við á Íslandi erum komin mjög langt í þessum málum en við virðumst samt aðeins hafa staðnað,“ segir Ragnhildur.

Edda og Ragnhildur eru sammála um að ferlið á bak við gerð bókarinnar hafi vakið þær til umhugsunar. „Já, þetta hristi alveg verulega upp í mér, maður tengdi við margt. Það er líka margt tekið fyrir í bókinni sem ég hafði ekkert áttað mig á, eitthvað sem hefur haft áhrif á mig án þess að ég hafi áttað mig á því.“

Þess má geta að bókin Forystuþjóð kemur út 16. febrúar og er unnið í samvinnu við Samtök atvinnulífsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×