Lífið

Gefa börnum í Burkina Faso hljóðfæri

Jóhanna Sigrún Norðfjörð
Jóhanna Sigrún Norðfjörð Vísir
Jóhanna Sigrún Norðfjörð skrifstofustjóri heldur í byrjun næsta mánaðar til borgarinnar Bobo í Burkina Faso, ásamt ellefu öðrum.

Þar hafa hjónin Hinrik Þorsteinsson og Guðný Ragnhildur Jónasdóttir rekið grunnskóla fyrir fátæk börn á vegum ABC barnahjálpar og er þetta sjöunda árið sem þau reka skólann.

Í skólanum eru tæplega fjögur hundruð börn. „Hópurinn mun taka þátt í ýmsum verkefnum og aðstoða við skólann. Verið er að stofna tónlistardeild í við skólannn og mun hópurinn taka þátt í því verkefni, en börnin hafa einungis aðgang að trommum eins og er,“ segir Jóhanna.

Hópurinn ætlar að færa börnunum hljóðfæri og eru þessa dagana að safna að sér notuðum hljóðfærum. „Við erum komin með nokkur hljóðfæri en ef einhver góðhjartaður vill losna við gömul hljóðfæri og gefa börnunum þá er það alveg frábært,“ segir hún.

Hópurinn mun dvelja úti í þrjár vikur og er áætluð brottför 4.febrúar.

„Planið er að fara og heimsækja skólann, aðstoða við kennslu og fleira. Við erum ekki einungis að aðstoða þau, heldur kenna þeim að hjálpa sér sjálfum og svo hefur það margfeldisáhrif,“ segir Jóhanna.

Ef einhver á gamla blokkflautu eða gítar inni í skáp og vill aðstoða þá bendir hún fólki á að senda tölvupóst á aldamaria@aveitan.is 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×