Innlent

Geðsvið án sálfræðinga ef starfandi verða veikir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geðdeild Landspítalans. Veikist sálfræðingur á geðdeild Landspítalans er ekki hægt að ráða inn tímabundið sálfræðing í stað hans. Fréttablaðið/Eyþór
Geðdeild Landspítalans. Veikist sálfræðingur á geðdeild Landspítalans er ekki hægt að ráða inn tímabundið sálfræðing í stað hans. Fréttablaðið/Eyþór
Geðsvið Landspítalans hefur ekki tök á að ráða tímabundið í stöður sálfræðinga þegar langtímaveikindi koma upp. Því geta einstaka deildir spítalans verið án sálfræðinga svo mánuðum skiptir. Nýlega kom þess staða upp á deild 33C á Hringbraut. 

„Þetta voru einhverjir mánuðir og það er óheppilegt,“ segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans.

Hún segir að ef sálfræðingur fer í barnsburðarleyfi eða launalaust leyfi þá beri spítalinn ekki kostnað af því og þá sé hægt að ráða tímabundið í staðinn. Í veikindum sé hins vegar ekki hægt að ráða fólk tímabundið.



María Einisdóttir


María segir það þó sannarlega vera uppleggið á geðsviðinu að vera með sálfræðing starfandi á öllum deildum og spítalinn vildi gjarnan hafa fleiri sálfræðinga starfandi. „Við erum með um 50 stöðugildi á öllum spítalanum, bæði vefrænu deildunum og geðdeildunum.

Gunnar Hrafn Jónsson alþingismaður, sem var frá vinnu í byrjun árs vegna veikinda, gagnrýnir í Fréttablaðinu á laugardaginn að geðsvið Landspítalans veiti enga bráðaþjónustu á kvöldin og um helgar.

„Fólk er því vinsamlegast beðið um að missa ekki vitið utan skrifstofutíma heldur harka af sér. Það er ólíðandi mannréttindabrot sem yrði ekki liðið ef um nokkurn annan sjúkdóm væri að ræða, til dæmis hjartasjúkdóm,“ segir Gunnar Hrafn.

María bendir á að bráðaþjónustan hafi verið opnuð upp úr aldamótum. Engin bráðaþjónusta hafi verið í boði á geðsviði fyrir þann tíma. „Við vorum með rýmri opnun en eftir hrun fórum við í sparnaðarpælingar með því að þrengja opnunartíma,“ segir María.

Nú séu geðdeildirnar með opna bráðaþjónustu frá 12 til 19 á virkum dögum og 12 til 17 um helgar. „Þetta gerðum við eftir að við höfðum skoðað hvenær flestar komur eru og við sáum að 90-95 prósent af þunganum er á þessum tíma,“ segir María.

Þegar lokað er á bráðaþjónustu á Hringbraut geta sjúklingar leitað á bráðamóttökuna í Fossvogi. Vakthafandi geðlæknir fer þá á bráðamóttökuna í Fossvogi og veitir þjónustuna þar.

„Þannig að það er sólarhrings­þjónusta,“ segir María.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×