Innlent

Geðlæknir veltir fyrir sér andlegu heilbrigði Sigmundar Davíðs

Jakob Bjarnar skrifar
Óttar Guðmundsson veltir því fyrir sér hvað Helgi Tómasson yfirlæknir hefði sagt um orð Sigmundar Davíðs?
Óttar Guðmundsson veltir því fyrir sér hvað Helgi Tómasson yfirlæknir hefði sagt um orð Sigmundar Davíðs?
„Hvað ætli Helgi heitinn Tómasson hefði sagt um raunveruleikaskyn þessa framsóknarmanns?“ spyr Óttar Guðmundsson geðlæknir í pistli sem hefur vakið hefur mikla athygli.

Í pistlinum veltir Óttar með óbeinum hætti fyrir sér andlegu heilbrigði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem einmitt nú stendur í ströngu á Kjördæmaþingi Framsóknarflokksins fyrir austan.

Óttar hefur pistil sinn á því að nefna Stóru bombu, eða Geðveikismálið sem skók Ísland árið 1930, þegar Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, greindi Jónasi Jónssyni frá Hriflu, dómsmálaráðherra, frá því að hann teldi Jónas haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Afleiðingar Stóru bombu urðu margvíslegar, meðal annars þær að Jónas vék Helga úr embætti. Óttar segir að íslenskir geðlæknar hafi æ síðan neitað staðfastlega að tjá sig um geðheilsu Framsóknarmanna.

Óttar tæpir á atriðum úr ræðu Sigmundar Davíðs sem hann flutti fyrir viku á Miðstjórnarfundi flokksins. Og fer ekkert á milli mála að geðlækninum þykir hér vel í lagt eða svo vitnað sé beint í pistilinn:

„Hann fór með himinskautum og opinberaði drauma sína og þrár. Stjórnmálaátök samtímans voru orðin að orrustunni við Waterloo og hann sjálfur umbreyttist í Wellington lávarð. Fylgismenn hans í Framsóknarflokknum voru fótgöngulið Englendinga sem beið komu Napóleons með brugðna byssustingi. Andstæðingurinn virtist vera hið fjölþjóðlega samsæri sem formaður flokksins hefur orðið fyrir, þar sem beitt er hlerunum, njósnum og alls konar bolabrögðum.

Heimskapítalisminn, Evrópusambandið og svikulir blaðasnápar reyna að hafa manninn undir en Sigmundur Wellington kemur ósigraður úr hverri raun. Hann gefst aldrei upp þótt skuggalegir skíthælar reyni að drepa hann. Púðurreykur fyllir loftin blá og jakkafataklæddir menn með sólgleraugu elta formanninn á röndum, brjótast inn í tölvuna hans og bjóða uppá bjálkakofafundi. Vonandi meiða óbreyttir framsóknarmenn sig ekki á hvössum byssustingjunum. Hvað ætli Helgi heitinn Tómasson hefði sagt um raunveruleikaskyn þessa framsóknarmanns?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×