Enski boltinn

Gazza biðst afsökunar á því að hafa fíflað Colin Henry fyrir 20 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Markið eftirminnilega hjá Paul Gascoigne.
Markið eftirminnilega hjá Paul Gascoigne. Vísir/Getty
Nágrannarnir Englendingar og Skotar mætast í undankeppni HM 2018 á Wembley á föstudagskvöldið en liðin eru saman í F-riðlinum.

Það er ekki á hverjum degi sem stærstu knattspyrnusambönd Breta mætast innbyrðis á fótboltavellinum og að sjálfsögðu hafa breskir fjölmiðlar verið að rifja upp gamlar rimmur liðanna.

Ein af þeim er þegar England og Skotland mættust á EM í Englandi fyrir rétt rúmum tuttugu árum síðan. Leikurinn var í riðlakeppninni fór fram á Wembley-leikvanginum.

Enska liðið vann leikinn 2-0. Alan Shearer skoraði fyrri markið á 53. mínútu en Paul Gascoigne skoraði það síðara og innsiglaði með því sigurinn á 79. mínútu.

Englendingar og Hollendingar fóru upp úr riðlinum en Skotar sátu eftir með sárt ennið á færri mörkum skoruðum.

Markið hjá Paul Gascoigne var eitt af mörkum keppninnar og er eitt eftirminnilegasta markið sem hann skoraði á ferlinum.

Gascoigne var þarna nýkominn til skoska liðsins Rangers eftir ævintýri sitt með Lazio á Ítalíu en hann hafði unnið tvöfalt með Rangers fyrr um vorið.

Leikurinn var því sérstakur fyrir þennan vandræðagemling sem kom sér í meiri vandræði með fagnaðarlátum sínum eftir markið þar sem hann apaði eftir drykkjulæti sín sem höfðu komist á síður blaðanna í aðdraganda leiksins.

Markið sjálft var algjört augnakonfekt þar sem hann sýndi hversu frábær fótboltamaður hann var. Gascoigne lyfti boltanum á stórkostlegan hátt fyrir varnarmanninn Colin Hendry og afgreiddi boltann síðan viðstöðulaust í markið.

Colin Hendry leit vægast illa út í þessu marki og nú tuttugu árum síðar ákvað Paul Gascoigne að biðja Hendry afsökunar á því að hafa farið svona illa með hann á Wembley-leikvanginum fyrir tuttugu árum síðan. Það má sjá Twitter-færslu Gazza hér fyrir neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×