Fótbolti

Gautaborg kaupir Elías Má af Vålerenga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
mynd/ifk
Sænska úrvalsdeildarliðið IFK Gautaborg hefur gengið frá kaupum á íslenska landsliðsframherjanum Elíasi Má Ómarssyni sem hefur verið á láni hjá liðinu síðustu mánuði. Þetta kemur fram á heimasíðu Gautaborgarliðsins.

Elías Már kom á láni frá Vålerenga á miðju tímabil og hefur slegið í gegn hjá Gautaborg. Hann skoraði sex mörk í þrettán leikjum og ákvað sænska liðið því að nýta sér forkaupsrétt á leikmanninum og ganga frá samningi við hann sem er til þriggja ára og rennur út árið 2020.

Þessi 21 árs gamli framherji sló í gegn með Keflavík í Pepsi-deildinni árið 2014 og var í kjölfarið keyptur til Vålerenga þar sem hann fékk lítið að spila framan af þessari leiktíð. Þá fór hann á láni til Gautaborgar og hefur ekki horft til baka.

„Það er augljóslega frábært að ná samningum við Elías Má og vita að hann er okkar leikmaður. Við höfum séð hann þróast mikið hjá okkur og vonum að hann haldi því áfram,“ segir Mats Gren, yfirmaður knattspyrnumála hjá IFK Gautaborg, á heimasíðu liðsins.

Elías Már er staddur með íslenska landsliðinu á Möltu þar sem strákarnir okkar mæta heimamönnum í vináttuleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×