Enski boltinn

Gat ekki mætt á æfingu því hliðið í innkeyrslunni var bilað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
McCormack er sjaldséður hvítur hrafn á æfingum.
McCormack er sjaldséður hvítur hrafn á æfingum. vísir/getty
Þolinmæði Steve Bruce, knattspyrnustjóra Aston Villa, gagnvart framherjanum Ross McCormack er á þrotum.

McCormack er ekki sá duglegasti að mæta á æfingar og steininn tók úr í síðustu viku þegar hann kvaðst ekki geta mætt á æfingu því hliðið í innkeyrslunni á heimili hans væri bilað.

Bruce hafði lítinn húmor fyrir þessari afsökun McCormack og sagði að framherjinn hefði auðveldlega getað stokkið yfir hliðið og hringt á leigubíl til að komast á æfingasvæði Villa.

Bruce er afar ósáttur við viðhorf McCormacks.vísir/getty
„Hann getur ekki spilað fyrr en hann bætir viðhorf sitt og fer að mæta betur á æfingar,“ sagði Bruce.

„Nýjasta afsökunin var að hliðið í innkeyrslunni væri bilað. En hann gat ekki stokkið yfir hlið sem var 140 cm hátt. Það hefur verið of mikið agaleysi, of lengi, hjá þessu félagi,“ bætti Bruce við.

Hann kvaðst aldrei hafa farið þessa leið áður á 20 ára ferli í þjálfun, að úthrópa eigin leikmann.

„Ég verð að standa fastur á mínu. Ég get ekki látið svona lagað líðast á minni vakt. Hvernig get ég valið leikmann sem vill ekki mæta á æfingar?“ sagði Bruce sem tók við Villa  í október á síðasta ári.

Villa er í 13. sæti ensku B-deildarinnar með 36 stig eftir 27 umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×