Fótbolti

Gat ekkert hjá Liverpool en gerir nú betur en súperstjörnurnar á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Iago Aspas.
Iago Aspas. Vísir/Samsett/Getty
Hann fékk ekki háa einkunn fyrir frammistöðuna í búningi Liverpool en það eru hinsvegar ekki margir sem á Spáni sem hafa gert betur í vetur.

Iago Aspas var áfram á skotskónum með Celta de Vigo í spænsku deildinni í gærkvöldi þegar hann skoraði sigurmarkið í 1-0 útisigri á Deportivo La Coruna.

Iago Aspas var leikmaður Liverpool frá 2013 til 2015 en náði ekki að skora eitt einasta mark í ensku úrvalsdeildinni. Eina markið hans fyrir félagið kom í bikarleik á móti Oldham Athletic.

Liverpool lánaði hans fyrst til Sevilla og seldi hann síðan til spænska félagsins sumarið eftir. Sevilla seldi hann hinsvegar til Celta de Vigo sama dag og þar hefur kappinn raðað inn mörkum.

Iago Aspas skoraði 18 mörk í öllum keppnum í fyrra en hefur síðan gert enn betur í ár. Aspas er kominn með 15 mörk í spænsku deildinni og 21 mark í öllum keppnum.  Auk þess að skora 21 mark hefur hann gefið 5 stoðsendingar og er því allt í öllu í sóknarleik Celta de Vigo.

Með því að skora fimmtán deildarmörk hefur Aspas þannig skorað fleiri mörk en súperstjörnurnar Antoine Griezmann (14), Karim Benzema (8) og Neymar (8) svo einhverjir séu nefndir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×