Enski boltinn

Gaston Ramirez með sigurmarkið á móti gamla félaginu sínu | Sjáðu markið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Middlesbrough hoppaði upp um þrjú sæti eftir 1-0 sigur í fallbaráttuslag á móti Hull City í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Úrúgvæmaðurinn Gaston Ramirez var hetja kvöldsins.

Nýliðarnir mættust þarna í lokaleik fjórtándu umferðar. Hull er áfram í næstneðsta sæti eftir tapið en Middlesbrough er nú komið upp í þrettánda sæti.  

Yfirburðir Middlesbrough í leiknum voru talsverðir en gestirnir í Hull áttu alltaf möguleika á meðan heimamenn náðu ekki að bæta við mörkum. Hull átti eitt alvöru skot á markið og það kom undir blálok leiksins.

Middlesbrough fór upp fyrir Crystal Palace, Burnley og Leicester City með þessum sigri. Englandsmeistararnir í Leicester eru þar með aðeins tveimur sætum frá fallsæti.

Gaston Ramirez skoraði eina mark leiksins á 60. mínútu þegar hann skallaði inn hornspyrnu frá Viktor Fischer. Gaston Ramirez var þarna að skora á móti sínum gömlu félögum en hann lék með Hull City tímabilið 2014-15.

Þetta var fyrsti sigur Middlesbrough síðan 29. október en liðið hafði aðeins fengið tvö stig út úr síðustu þremur leikjum sínum í deildinni.

Hull City hefur nú tapað fimm útileikjum í röð og markatalan í þeim er 16-2, mótherjum þeirra í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×