Körfubolti

Gasol íhugar að fara ekki til Ríó vegna Zika-veirunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gasol á í leik á Ólympíuleikunum í London fyrir fjórum árum.
Gasol á í leik á Ólympíuleikunum í London fyrir fjórum árum. vísir/getty
Pau Gasol, skærasta stjarna spænska körfuboltalandsliðsins, íhugar að keppa ekki á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst vegna Zika-faraldsins sem geisar í Brasilíu.

Gasol sagði í dag að það væri of mikil óvissa vegna ástandsins í Brasilíu og þeir sem væru á leið til Ríó þyrftu að hugsa sig tvisvar um hvort þeir ættu að fara.

Að sögn Gasols hafa fleiri spænskir íþróttamenn áhyggjur af ástandinu og íhuga að vera heima.    

„Það kæmi mér ekki á óvart að sjá íþróttamenn hætta við að keppa á Ólympíuleikunum til að stofna heilsu sinni, og fjölskyldna sinna, ekki í hættu,“ sagði Gasol en Zika-veiran getur orsakað alvarlegan fósturskaða. Sýnt hefur verið fram á tengsl hennar og svokallaðra smáheila sem þúsundir barna í Brasilíu fæddust með á síðasta ári.

„Sumir þessara íþróttamanna ætla að eignast börn í framtíðinni og þetta gæti haft áhrif á þá og heilsu barna þeirra og eiginkvenna. Fólk á að setja heilsuna í fyrsta sæti,“ sagði Gasol sem hefur þrisvar sinnum keppt á Ólympíuleikum.

Sjá einnig: Rory McIlroy ætlar að fylgjast vel með fréttum af Zika vírusnum

Meðal annarra íþróttamanna sem hafa lýst yfir áhyggjum af ástandinu í Brasilíu má nefna norður-írska kylfinginn Rory McIlroy og bandarísku fótboltakonurnar Hope Solo og Alex Morgan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×