Skoðun

Gasa: Hvað er til ráða?

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Þegar þetta er skrifað hafa yfir þúsund manns látist á Gasa. Meirihluti þeirra eru óbreyttir palestínskir borgarar, og yfir 200 þeirra eru börn. Eins og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum benti á þegar hún ávarpaði Öryggisráðið í síðustu viku er rótin að átökunum hernám Ísraels á Gasa og Vesturbakkanum. Enginn friður fæst á svæðinu á meðan Ísraelsher heldur Palestínumönnum í gíslingu í eigin landi og brýtur ítrekað á réttindum þeirra.

En hvað er til ráða? Hvað getum við gert til að knýja Ísraelsstjórn til að fara að alþjóðalögum og draga herlið sitt til baka frá Palestínu? Í fyrsta lagi ættum við að skoða vel hvort beita megi viðskiptaþvingunum á Ísrael til að knýja fram frið, sambærilegar þeim sem settar voru á aðskilnaðarstjórnina í Suður-Afríku á sínum tíma. Raunar getum við öll lagt okkar af mörkum í þeim efnum nú þegar með því að sniðganga ísraelskar vörur frá hernumdu svæðum Palestínu. Hér myndi hjálpa til ef slíkar vörur væru merktar sérstaklega, eins og kveðið er á um í þingsályktunartillögu Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna, frá síðasta vetri. Sú tillaga verður endurflutt í haust og hlýtur vonandi framgöngu á Alþingi.

Í öðru lagi getum við að sjálfsögðu þrýst á Ísraelsmenn eftir diplómatískum leiðum. Mikið hefur verið rætt um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael og er sú hugmynd allrar athygli verð í ljósi alvarleika málsins. Einnig þyrfti að skoða hvort Ísland geti gripið til diplómatískra aðgerða sem eru sambærilegar því þegar Brasilía og Ekvador drógu sendiherra sína til baka frá Ísrael í síðustu viku. Í þriðja lagi er enn ekki útséð um að Sameinuðu þjóðirnar geti komið að lausn deilunnar, en þá skiptir miklu máli að breyta afstöðu Bandaríkjanna. Hingað til hafa Bandaríkin staðið í vegi fyrir öllum raunverulegum aðgerðum til að þrýsta á Ísrael á vettvangi SÞ, meðal annars með því að beita neitunarvaldi sínu í Öryggisráði SÞ ótal sinnum. Í ljósi sögu Íslands og Bandaríkjanna ætti Ísland að leita allra leiða til að þrýsta á Bandaríkin um að endurskoða stuðning sinn við framferði Ísraelshers í Palestínu.




Skoðun

Sjá meira


×