Innlent

Gas muni leggja til norðausturs í dag

Bjarki Ármannsson skrifar
Í dag er helst líkur á gasmengun á Norðausturlandi vegna gossins.
Í dag er helst líkur á gasmengun á Norðausturlandi vegna gossins. Vísir/Vilhelm
Gas frá eldgosinu í Holuhrauni mun í dag leggja til norðausturs frá gosstöðvunum, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Miðað er við að svæðið þar sem gasmengunar gætir mögulega sé frá Þistilfirði í norðri til Héraðs í suðri. Hægt er að fylgjast með styrk gasmengunar í lofti á vefsíðunni loftgaedi.is.

Gas hefur streymt látlaust upp úr eldgígunum um helgina og hafa vísindamenn á vettvangi orðið varir við dauða fugla á svæðinu vegna þess. Á fimmta tímanum í gær mældist styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) rúmlega 700 míkrógrömmm á rúmmetra, en viðkvæmir geta fundið fyrir áhrifum mengunarinnar þegar styrkurinn mælist yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra.

Samkvæmt vísindamannaráði almannavarna eru engin merki um að eldgosið sé í rénun en hraunbreiðan úr gosinu er nú rúmlega 37 ferkílómetrar að stærð. Ekkert hefur dregið úr framleiðslu hrauns og sömuleiðis heldur sig öskju Bárðarbungu áfram á svipuðum hraða og undanfarna daga.

Þá mældust í gær um 85 skjálftar á gossvæðinu, þar af fjórir yfir fjögur stig að styrkleika. Þeir stærstu mældust 4,8 stig, rétt fyrir klukkan eitt um nótt, og 5,5 stig rétt fyrir klukkan ellefu um morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×