Fótbolti

Gary Martin yfirgefur Lokeren

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gary í leik með Víkingi.
Gary í leik með Víkingi. vísir/eyþór
Enski framherjinn Gary Martin greinir frá því á Twitter að hann sé á förum frá Lokeren í Belgíu.

Gary gekk í raðir Lokeren í byrjun árs. Þar hitti hann fyrir Rúnar Kristinsson sem var þjálfari hans hjá KR á árunum 2012-14.

Gary náði sér ekki á strik hjá Lokeren og skoraði ekki mark fyrir belgíska félagið.

Í færslu á Twitter þakkar Gary Lokeren fyrir sinn tíma hjá félaginu og segir að það gangi ekki alltaf allt upp. Einn slæmur kafli þýði hins vegar ekki að bókin sé á enda. Hann spyr svo hvaða lið verði næst.

Gary lék sem áður sagði með KR en sem kunnugt er tók Rúnar við liðinu á dögunum. Það er því spurning hann endurnýji kynnin við sinn gamla þjálfara.

Gary kom upphaflega hingað til lands árið 2010 þegar hann gekk í raðir ÍA sem var þá í 1. deildinni. Hann lék með Skagamönnum fram á mitt sumar 2012 þegar hann fór til KR.

Gary varð einu sinni Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með KR áður en hann fór til Víkings R. eftir tímabilið 2015. Englendingurinn skoraði fimm mörk í 13 deildarleikjum fyrir Víking áður en Rúnar fékk hann á láni til Lilleström í Noregi á miðju tímabili 2016.

Gary hefur alls leikið 93 leiki í Pepsi-deildinni og skorað 43 mörk. Hann varð markahæsti leikmaður deildarinnar 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×