Íslenski boltinn

Gary Martin genginn í raðir Lokeren

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Martin er kominn til Belgíu.
Gary Martin er kominn til Belgíu. mynd/lokeren
Enski framherjinn Gary Martin er formlega genginn í raðir belgíska úrvalsdeildarfélagsins Lokeren, en hann skrifaði undir hálfs þriggja ára samning við það í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu Lokeren.

Þetta hefur legið lengi í loftinu en Gary var í æfingaferð með Lokeren á Spáni á dögunum þar sem hann skoraði í einum leik. Þjálfari Lokeren er Rúnar Kristinsson en saman urðu þeir Gary tvisvar sinnum Íslandsmeistarar og þrisvar sinnum bikarmeistarar hjá KR.

Lokeren borgar um sjö milljónir króna fyrir markahrókinn, samkvæmt heimildum Vísis, en sú upphæð getur á endanum numið allt að þrettán milljónum króna með árangurstengdum greiðslum. Þá fá Víkingar hluta af næsta söluverði framherjans, samkvæmt heimildum Vísis.

Gary kom til Víkings frá KR eftir tímabilið 2015. Hann skoraði fimm mörk í þrettán leikjum fyrir Fossvogsfélagið áður en Rúnar Kristinsson fékk hann á láni til Lilleström seinni hluta leiktíðar. Þar skoraði hann fjögur mörk í tíu leikjum og átti stóran þátt í því að halda liðinu í norsku úrvalsdeildinni. Gary Martin á að baki 93 leiki og 43 mörk í efstu deild með ÍA, KR og Víkingi.

Hjá Lokeren hittir Gary tvo íslenska landsliðsmenn; Sverri Inga Ingason og Ara Frey Skúlason. Liðið er í tíunda sæti belgísku úrvalsdeildarinnar en það er taplaust í sex síðustu leikjum undir stjórn Rúnars Kristinssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×