Innlent

Gangi ekki til lengdar að RÚV sé á auglýsingamarkaði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Illugi Gunnarsson vill RÚV af auglýsingamarkaði.
Illugi Gunnarsson vill RÚV af auglýsingamarkaði. Vísir
Það gengur ekki til lengdar að Ríkisútvarpið sé á auglýsingamarkaði að mati Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra. Horfast verði í augu við það og grípa til aðgerða.

Þetta kom fram í máli ráðherrans í sérstakri umræðu um fjölmiðla á Alþingi í dag. Sagði Illugi að rekstrarstaða fjölmiðla væri áhyggjuefni:

„Breytingar eru að verða til dæmis á auglýsingamarkaði þar sem auglýsingar eru að færast yfir til efnisveitna eins og Google og Facebook, inn á erlenda fjölmiðla, svo dæmi séu tekin. Innkoma efnisveitna eins og Netflix, fyrirsjáanleg innkoma fleiri erlendra aðila sem bjóða upp á afþreyingarefni þrengir að íslenskri fjölmiðlastarfsemi, sérstaklega á ljósvakasviðinu.

Ég held að ekki verði undan því komist að ræða það og hef ég kallað eftir þeirri umræðu áður og bendi á að eitt af því sem við hljótum að þurfa að taka afstöðu til hér og verður meira og meira knýjandi er sú staðreynd að ríkisútvarpið á Íslandi er á auglýsingamarkaði og er þar umsvifamikið,“ sagði ráðherrann.

Hann sagði að það myndi kannski taka tíma að færa RÚV af auglýsingamarkaði en engu að síður þyrfti að fara undirbúa það þar sem rekstrarstaða fjölmiðla muni fara versnandi.

„Þá hljótum við að horfa til fjölmiðlaumhverfis annars staðar Norðurlöndum og víðar þar sem ríkisrekni fjölmiðillinn er ekki á auglýsingamarkaði. Það hlýtur að vekja athygli hversu stóran hluta af áhorfi á ljósvakamiðlana Ríkisútvarpið tekur, hversu umsvifamikið það er þegar við horfum til þessara þátta. Það þarf að hafa í huga,“ sagði Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×