Innlent

Ganga þvert yfir jökul í minningu látins drengs

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sjúkraflutningamennirnir Arnar Páll Gíslason og Sigurður Bjarni Sveinsson ætla að ganga þvert yfir Mýrdalsjökul á gönguskíðum á morgun til að safna fé fyrir fjölskyldu Guðsteins Harðarsonar, tveggja ára drengs sem lést í hörmulegu slysi í Meðallandi í apríl.

Guðsteinn Harðar­son fædd­ist 14. des­em­ber 2012 og var til heim­il­is á bæn­um Efri-Ey 1 í Meðallandi. Hann lést í hörmulegu slysi á bænum hinn 6. apríl síðastliðinn þegar hann féll út um dyra­op drátt­ar­vél­ar og lenti und­ir mal­ar­vagni sem var aft­an í drátt­ar­vél­inni. Hann var aðeins 27 mánaða.

Arnar Páll Gíslason sem er frændi Guðsteins og Sigurður Bjarni Sveinsson samstarfsmaður hans ætla að ganga þvert yfir Mýrdalsjökul í einum rykk á morgun til að safna fé fyrir fjölskyldu drengsins. Þeim til halds og trausts í gegnum fjarskiptabúnað verður Ragna Björg Ársælsdóttir.

Slysið var ekki bara erfitt fyrir fjölskyldu Guðsteins.

„Það eru meira og minna allir lamaðir af sorg. Það taka þetta allir mjög inn á sig en flestir sem búa í sveitinni í kring eru bændur enda mjög margir bændur í Vestur-Skaftafellssýslu,“ segir Ragna Björg.

Arnar Páll segir að gangan sé ekki aðeins til þess að safna fé fyrir fjölskylduna heldur einnig til þess að halda minningu drengsins á lofti.

„Tilhneigingin virðist vera sú, þegar svona ljót slys gerast og hræðilegir atburðir, að við reynum að gleyma þeim og reyna að komast yfir þá þannig. Ég hugsa að það sé jafnvel betra að vinna úr þessum málum á þennan hátt og halda minningu drengsins á lofti, reyna að bæta þeirra líðan (fjölskyldunnar) og koma í veg fyrir svona í framtíðinni,“ segir Arnar Páll.

Með því að slá inn leitarorðið Guðsteinsgangan á Facebook má finna síðu leiðangursins en þar eru líka upplýsingar um styrktarreikning.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×