Lífið

Gamlir vinir á næstu Solstice hátið

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Foo Fighters drógu Nilfisk upp á svið á tónleikum sínum í Höllinni, en þá voru þeir aðeins 16 ára og eins og sést hefur það verið nokkuð mikið fjör.
Foo Fighters drógu Nilfisk upp á svið á tónleikum sínum í Höllinni, en þá voru þeir aðeins 16 ára og eins og sést hefur það verið nokkuð mikið fjör.
Nú hefur verið tilkynnt um nokkur af þeim erlendu böndum sem munu spila á Secret Solstice hátíðinni næsta sumar. Þar má finna nokkra Íslandsvini og auk þess gamla vini sem margir muna eftir frá tíunda áratugnum.

Foo Fighters


Strákarnir í Foo Fighters eru enn einir Íslandsvinirnir á þessum lista en þeir hafa komið tvisvar hingað til lands og enn oftar hrópað eitthvað um ágæti landsins á sviði hér og þar. Eins og frægt er mætti bandið árið 2003 og ferðaðist meðal annars um Suðurland þar sem þeir rákust á strákana í Nilfisk sem voru á æfingu í bílskúr á Stokkseyri. Þeim leist svo vel á þá að þeir fengu þá til að hita upp á tónleikum sveitarinnar í Höllinni. Árið 2005 þegar Foo Fighters komu aftur héldu þeir svo tónleika á Stokkseyri – frítt. Þvílíkt góðir gaurar.

Foo Fighters er auðvitað gríðarlega vinsæl hljómsveit sem spratt upp úr rústum Nirvana árið 1994 rétt eftir dauða Kurts Cobain. Foo Fighters hefur verið í pásu nokkuð lengi síðustu árin en er þó ekki hætt og hafa þeir kapparnir undirstrikað það nokkuð oft með alls konar skilaboðum og myndböndum á heimasíðunni sinni. Og þeir eru varla hættir fyrst þeir hafa boðað komu sína í Laugardalinn næsta sumar.



Pharoah Monch

Pharoah Monch hóf feril sinn í hljómsveitinni Organized Kon­fusion, sem varð þó aldrei fræg, þannig lagað – átti aldrei smelli á neinum listum, en sveitin lifir í kollum hiphophausa um allan heim og er oft talin ein besta rapphljómsveit allra tíma. Platan þeirra Stress: The Extinction Agenda er oftar en ekki sett á lista yfir bestu rappplötur allra tíma.

Eftir að hljómsveitin lagði upp laupana hóf Pharoah Monch sólóferil sinn og er kannski hvað þekktastur fyrir lagið Simon Says sem ennþá fær að heyrast í klúbbum og á kappleikjum um allan heim. Lagið notast við sampl úr japönsku kvikmyndinni Gojira Tai Mosura eða Godzilla vs Mothra og var Pharoah Monch kærður fyrir notkun sína á samplinu. Það olli honum talsverðum vandræðum og varð meðal annars til þess að hann gat ekki gefið út neinar plötur í nokkur ár og ekki þénað neitt á laginu sjálfu, sem hlýtur að vera ákveðinn skellur miðað við hvað þetta lag hefur fengið að heyrast mikið síðustu sautján árin.



Richard Ashcroft er hér með speglagleraugu og það sem virðist vera gasgríma sem hann ber um hálsinn.
Richard Ashcroft

Richard Ashcroft var söngvari hljómsveitarinnar The Verve sem var ákaflega vinsæl á tíunda áratugnum og gerði meðal annars lagið Bitter Sweet Symphony sem aðdáendur britpops kalla gjarnan besta lag allra tíma. Sem sólólistamaður hefur Richard Ashcroft náð miklum vinsældum og hefur Chris Martin úr Coldplay meðal annars kallað hann besta söngvara í heimi sem verða að teljast ansi stór orð.

Hans frægasta lag sem sólólistamanns er tvímælalaust A Song for the Lovers frá árinu 2000. Það er oft talað um það sem Verve-lag fyrir misskilning, enda mjög Verve-legt en ástæða þess er að lagið átti upphaflega að koma út með hljómsveitinni en það varð aldrei að veruleika og lagið heyrðist ekki fyrr en Richard notaði það sjálfur á sinni fyrstu sólóplötu, Alone with Everybody.



The Prodigy hefur áður komið í Laugardalinn og kannast því líklega vel við svæðið og mögulega líka sögu þess.
The Prodigy

Fyrir margan Íslendinginn er breska hljómsveitin The Prod­igy tíundi áratugurinn holdi klæddur, með fríkaðar linsur og grænan hanakamb. Sveitin hefur komið hingað til lands nokkrum sinnum, spilaði meðal annars á hinni alræmdu tónlistarhátíð Uxa árið 1995 sem margir eiga vafalaust góðar minningar frá, ef þeir á annað borð voru að búa til minningar þar.

The Prodigy hefur auðvitað átt heilan helling af smellum allt síðan snemma á tíunda áratugnum. Firestarter, Poision, Breath, Smack My Bitch Up?… og það væri hægt að halda endalaust áfram. The Prodigy eru hvergi nærri hætt – í fyrra kom út ný plata frá henni og sveitin hefur verið að túra grimmt eftir útgáfu hennar. Þeir segjast þó hættir að gefa út breiðskífur og ætli héðan í frá einungis að gefa út stuttskífur (EP-plötur), hvað sem það nú þýðir.



Foreign Beggars

Breska hljómsveitin Foreign Beggars spilar villta blöndu af rappi og dubstep/elektróník og hefur verið nokkuð vinsæl í heimalandi sínu og víðar um Evrópu. Þetta verður í annað sinn sem sveitin spilar á Secret Solstice hátíðinni en hún heimsótti Laugardalinn árið 2015 og fékk þá fínustu viðtökur.

Foreign Beggars var stofnuð árið 2002 í London og þá var hljómsveitin að vinna með grime og aðra „neðanjarðar“ rappstíla. Síðar meir varð tónlist Foreign Beggars eins konar blanda af rappi og háværum raftónlistarstefnum eins og dubstep og drum n bass og varð talsvert vinsæl fyrir vikið, sérstaklega á toppi dubstep stormsveipsins sem reið yfir heiminn í kringum 2009 og dó út skömmu síðar. Þeirra vinsælasta lag er líklega Contact en það er fínasta dæmi um hvers lags hljómsveit Foreign Beggars er, bæði lagið og myndbandið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×