Innlent

Gamlir formenn Framsóknar forviða

Sveinn Arnarsson skrifar
Fyrrverandi formenn Framsóknarflokksins, þau Valgerður Sverrisdóttir og Jón Sigurðsson, furða sig á framgöngu ríkisstjórnarinnar í tengslum við aðildarumsókn Íslands að ESB.
Fyrrverandi formenn Framsóknarflokksins, þau Valgerður Sverrisdóttir og Jón Sigurðsson, furða sig á framgöngu ríkisstjórnarinnar í tengslum við aðildarumsókn Íslands að ESB.
Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, finnst að verið sé að reka hana yfir til Samfylkingarinnar með yfirlýsingum um að kosið hafi verið um aðild Íslands að ESB í síðustu kosningum.

„Ég hef ekki viljað gefast upp á þessari ríkisstjórn en það hafa margir látið sig hverfa, meðal annars út frá Evrópumálum,“ segir Valgerður.

„Mér sárnar þegar framsóknarmenn segja að búið sé að kjósa um Evrópumál í síðustu kosningum. Mér finnst verið að reka mig yfir til Samfylkingarinnar með því að vera með þessar yfirlýsingar.“

Bréf Gunnars Braga Sveinssonar til Johannesar Hahn, framkvæmdastjóra aðildarviðræðna ESB, hefur mætt mikilli andstöðu. Ljóst er að fyrrverandi forsvarsmenn Framsóknarflokksins eru ekki sammála þeirri stefnu sem flokkurinn rekur nú.

Jón Sigurðsson, sem var formaður Framsóknarflokksins 2006-2007, er einnig óánægður með vinnubrögð ríkisstjórnar Íslands í málinu. Telur hann vinnubrögðin vera aðför að stjórnskipun lýðveldisins með því að taka málið ekki fyrir í utanríkismálanefnd.

„Ef minn skilningur á þessu máli er réttur hefur ákaflega lítið breyst síðan Össur lét hægja á ferlinu. Evrópusambandið segir að málið sé einfaldlega lagt til hliðar,“ segir Jón.

„Hins vegar er alveg ljóst að með þessu hefur ríkisstjórnin troðið á stjórnskipun lýðveldisins Íslands með því að taka málið ekki fyrir í utanríkismálanefnd. Að mínu mati er þetta grófara en þegar ákveðið var að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða í stríðinu gegn Írak,“ segir Jón. 

Valgerður telur líklegt að pólitískt landslag verði gjörbreytt eftir tvö ár þegar kosið verður á nýjan leik til Alþingis.

„Það getur margt breyst þangað til kosið verður næst. Við skulum athuga að það verður til nýr flokkur á hægri vængnum sem hefur aðra stefnu í Evrópumálum en núverandi stjórnvöld. Það verður því líklega allt annað landslag í næstu kosningum,“ segir Valgerður. 

Að mati Jóns eru vinnubrögð stjórnvalda aðalatriðið í málinu. Aðild Íslands að ESB er ekki aðalatriðið.

„Hér eru líklega engar breytingar andspænis ESB en ég harma að svona skuli farið með stjórnskipun Íslands. Að mínu mati er hér á ferð klunnaleg leið til að sýna stjórnarskrá Íslands fyrirlitningu.“

Vísir

Tengdar fréttir

Aðildarumsóknin hefur ekki verið afturkölluð

Formaður utanríkismálanefndar segir enga stefnubreytingu felast í bréfi utanríkisráðherra til ESB. Fyrri stefna sé ítrekuð en þingsályktun um viðræður sé enn í gildi.

Með ólíkindum að hundsa nefnd

Björg Thorarensen lagaprófessor segir utanríkisráðherra hafa skýra heimild til að gefa út yfirlýsingu um stöðu Íslands gagnvart ESB. Það sé þó með ólíkindum að málið hafi ekki verið rætt í utanríkismálanefnd. Skortir ákvæði í stjórnarskránni.

Ekki boðað til þingfundar í dag

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hafnaði í morgun ósk minnihlutans um að haldinn verði þingfundur í dag til að ræða stöðuna sem upp er komin í Evrópusambandsmálum.

Þingmenn sniðganga eigin árshátíð

Í kvöld fór fram hefðbundinn þingveisla á Hótel Sögu, Súlnasal en það var forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, sem bauð til veislunnar.

"Ánægjulegt og eðlilegt“

Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar, segir engu pólitísku afli detta í hug að fara í sama "skollaleik“ og farið var í 2009.

Fólk streymir niður á Austurvöll

Fjöldi fólks streymir niður að Alþingishúsinu til að mótmæla því að ríkisstjórnin hefur nú fyrirvaralaust slitið aðildarviðræðum við ESB.

Ísland ekki lengur umsóknarríki ESB

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hún hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik.

Fordæmisgefandi fyrir ríkisstjórnir framtíðarinnar

Ákvörðun utanríkisráðherra um að afhenda utanríkisráðherra Lettlands, sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB, bréf þess efnis að ríkisstjórnin liti svo á að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að ESB hefur vakið upp mikil og hörð viðbrögð bæði í þinginu og meðal almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×