Innlent

Gamli Kennaraháskólinn hýsi framhaldsskóla

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristín segir mörg verkefni í undirbúningi eða búið að ljúka.
Kristín segir mörg verkefni í undirbúningi eða búið að ljúka. fréttablaðið/GVA
Búið er að samþykkja deiliskipulag á svæði Háskóla Íslands fyrir nýtt hús menntavísindasviðs skólans. Menntavísindasvið hefur núna aðstöðu í Stakkahlíð og Bolholti, þar sem Kennaraháskólinn var áður. „Við gerum ráð fyrir því að þau komi á lóðina, vonandi eins fljótt og hægt er,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Hún segir að nýtt hús verði staðsett í námunda við VR I og VR II á horni Suðurgötu og Hjarðarhaga.

Kristín segir að gamla húsnæðið í Stakkahlíð verði væntanlega selt og það hafi verið rætt að það gæti hentað vel fyrir framhaldsskóla. Hún segir húsnæðið vera mjög gott en stúdentar og starfsfólk menntavísindasviðsins þurfi að vera nær háskólasvæðinu. Hún segir ekki víst hvenær bygging húsnæðisins gæti hafist. „Það er í rauninni undir menntamálaráðuneytinu komið. Þetta yrði fjármagnað af ríkinu,“ segir Kristín.

Kristín og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu í gær samning um lóðir háskólans. Samningurinn tekur til um 400 þúsund fermetra landsvæðis og í tilkynningu segir að hann marki ákveðin tímamót í samskiptum Reykjavíkurborgar og Háskólans. Tekin eru af öll tvímæli um afmörkun eignarlóðar háskólans, sem og hvaða lóðir falla undir lóðarleigu en þar eru lóðir fyrir kennsluhúsnæði nú undanskildar. „Það skiptir máli fyrir okkur hvað varðar árleg gjöld,“ segir Kristín.

Hún segir að mörg verkefni séu annaðhvort í undirbúningi eða búið að ljúka við sem breyti ásýnd lóðarinnar og borgarinnar. „Ég nefni sem dæmi stúdentagarðana hér á vísindagarðalóðinni, svo byggingu Alvogen fyrir rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Ég nefni líka deiliskipulag fyrir stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, sömuleiðis deiliskipulag fyrir Hús íslenskra fræða,“ segir Kristín og bætir við að spítalalóðin skipti mjög miklu máli vegna þess að þar verði heilbrigðisvísindagreinarnar allar til húsa.

Þá bendir hún á viljayfirlýsingu um að þróa starfsemi Háskóla Íslands inn á Fluggarðasvæðið. „Það skiptir mjög miklu máli vegna þess að þetta er eina áttin sem skólinn getur stækkað á næstu áratugum,“ segir Kristín, en bendir jafnframt á að ekkert hafi verið ákveðið hvað verði á Fluggarðasvæðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×