Innlent

Gamli flugskólinn rifinn

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Gamla húsið á Reykjavíkurflugvelli þar sem flugskóli Helga J. Jónssonar var til húsa, var rifið í dag.

Jytte  Mercher, ekkja Helga hefur í mörg ár deilt við Isavia um húsið. Henni var brugðið þegar  menn á stórvirkum vinnuvélum mættu í morgun til að jafna húsið við jörðu.

Þegar Stöð 2 bar að garði um tvöleytið biðu gröfurnar átekta við flugskólann. Jytte Mercher sagðist hafa misst húsið í hendur lögfræðingi sem hafi selt það fyrrverandi flugmálastjóra Árum saman hefði hún reynt að fá að kaupa eða leigja húsið en fjöldi fólks hefði viljað leggja hönd á plóg við að gera það upp. Flugmönnum þyki vænt um húsið því það sé sögulegar minjar um flugnám á Íslandi. Isavia hafi hinsvegar varla virt hana svars.

Upplýsingafulltrúi Isavia sagði við Stöð 2 að þetta væri ónýtt hús sem Reykjavíkurborg hafi árum saman farið fram á yrði rifið, þar sem það væri bæði ónýtt og heilsuspillandi. Öllum óskum um að kaupa það hafi verið svarað neitandi. Jytte Mercher segir hinsvegar að starfsmenn Isavia hafi ekki stigið fæti inn í húsið heldur viljandi látið það drabbast niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×