Innlent

Gamla fólkið notar geðlyf í miklum mæli

Sveinn Arnarsson skrifar
Landlæknisembættið segir fóki á hjúkrunarheimilum gefin lyf vegna hegðunarvandamála eða óróleika aldraðra.
Landlæknisembættið segir fóki á hjúkrunarheimilum gefin lyf vegna hegðunarvandamála eða óróleika aldraðra. vísir/pjetur
Fjórða hvert gamalmenni á öldrunarheimili á Íslandi er á sterkum geðlyfjum án þess að kljást við geðsjúkdóm. Vistmönnum eru gefin geðlyf vegna óróleika eða einhvers konar hegðunarvandamála að mati Embættis landlæknis.

Fréttablaðið sagði frá því síðastliðinn þriðjudag að tæplega 36 þúsund dagskammtar af geðlyfjum væru keyptir inn á Mörk hjúkrunarheimili sem jafnast á við að hver vistmaður fái dagskammt á hverjum degi. Hjúkrunarheimili notast við svokallaða RAI-gæðavísa og er þetta einn þeirra þátta sem skoðaðir eru í þeim gæðavísi. Gísli Páll Pálsson, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins, sagði við það tilefni að stefnan væri sú að minnka lyfjanotkun sem mest.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, hefur spurt heilbrigðisráðherra um notkun geðlyfja á elliheimilum og vill vita hvernig notkun skiptist niður eftir heimilum. Hún telur notkunina of mikla. „Það er alveg á hreinu að notkun lyfja er of mikil ef fjórðungur vistmanna á öllu landinu er á sterkum geðlyfjum án þess að vera haldinn einhvers konar geðsjúkdómi,“ segir Bjarkey. „Því spyr maður sig hvort mannekla hafi áhrif eða hvort aðrir þættir spili inn í.“

Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara, segir að þessar niðurstöður RAI-matsins komi á óvart og hljóti að að kalla á frekari skoðun landlæknisembættisins á því hvað valdi. Mikilvægt sé að sú skoðun gangi hratt fyrir sig og að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að tryggja að lyfjagjöf á hjúkrunarheimilum sé nákvæm og rekjanleg.

Laura Scheving Thorsteinsson, sérfræðingur í eftirliti hjá landlæknisembættinu, segir embættið ekki gera kröfu um úrbætur ef hlutfall þeirra sem eru á geðlyfjum án geðsjúkdóms fari ekki yfir 31 prósent. Allt fyrir neðan það sé eðlilegt.

„Þessir innlendu gæðavísar voru gerðir á sínum tíma af fagfólki,“ segir Laura. „Langflestir þeirra sem eru á slíkum lyfjum eru með einhvers konar hegðunarvandamál eða órólegir á einhvern hátt.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×