Bíó og sjónvarp

Game of Thrones: Hvað stóð í bréfinu og hver fékk það?

Samúel Karl Ólason skrifar
Byrjum á því að vara við Höskuldum.



Hér að neðan verður farið yfir atriði úr síðasta þætti Game of Thrones og mögulega framvindu.



Þeir sem vilja ekki vita meira ættu að hætta hér. Annars kemur Höskuldur og segir þér hvað gerist!

Einungis þrír þættir eru eftir af sjöttu þáttaröð Game of Thrones. Áhorfendur eru með þá tilfinningu að nú sé búið að raða öllu upp og að mikið eigi eftir að gerast í síðustu þáttunum.

Í síðasta þætti gekk Jon Snow og Sönsu Stark illa að safna liði til þess að ráðast á Winterfell og ganga frá Ramsay Bolton og frelsa bróðir þeirra Rickon.

Um tvö þúsund villingar fylgja Jon Snow, en þar að auki tókst þeim einungis að afla rétt rúmlega 400 manna. Tvö hundruð frá Hornwood ættinni, 143 frá Mazin ættinni og 62 frá Lady Mormont.

Sansa taldi það ekki nægilega marga menn og vildi safna fleirum. Jon Snow taldi þau ekki hafa nægan tíma til þess. Þau myndu notast við það sem þau hefðu. Þau telja að Ramsay hafi um fimm þúsund menn.

Því næst fór Sansa og sendi bréf sem hún merkti með skjaldarmerki Stark ættarinnar.

Flestir áttu ef til vill auðvelt með að gera sér í hugarlund til hvers Sansa sendi þetta bréf og hvers vegna. Það var þó ekki nóg fyrir alla.

Með því að skoða atriðið ramma fyrir ramma og nota myndvinnsluforrit tókst notendum Reddit að sjá hvað stóð í raun í því. Myndina af því má sjá hér að neðan.

Þú lofaðir að vernda mig. Nú hefur þú tækifæri til að standa við loforðið. Riddarar Vale eru undir þinni stjórn. Ríddu norður til Winterfell. Veittu okkur aðstoð og ég skal sjá til þess að þú verðir verðlaunaður.

Líklegast er hún að senda bréfið til Petyr Baelish, eða Littlefinger, og biðja hann um hjálp. Baelish var búinn að segja Sönsu að hann væri með her Vale í Moat Cailin og tilbúinn til innrásar í norðið og að hjálpa henni að endurheimta Winterfell.

Sjá einnig: Skriðin út úr skelinni?

Sansa ákvað hins vegar að neita Baelish. Þá sagði hún Jon Snow ekki frá því að her Littlefinger væri komin til norðursins.

Mögulega er hún ekki að senda bréfið til Littlefinger, heldur til frænda síns Robbin Arren. Þannig gæti hún mögulega verið að reyna að bregða fæti fyrir Littlefinger, sem stjórnar Robbin eins og brúðumeistari.

Óreiða er stigi

Þó verður að teljast líklegra að bréfið sé stílað á Littlefinger. Þá er spurningin hvers það gæti leitt til. Að stór her sé á leið til Winterfell og Jon Snow og félagar hafi ekki hugmynd um það.

Þá er spurningin bara: Hvað ætlar Littlefinger að gera? Svarið er að mínu mati einfalt. Eins og Littlefinger sjálfur orðaði það á svo eftirminnilegan hátt: „Óreiða er stigi“.

Hvað sem Littlefinger gerir, mun hann gera það til að hagnast á því. Þá mun sú ákvörðun Sönsu að segja Jon Snow ekki frá Littlefinger án efa hafa áhrif á samband þeirra og ekki til hins betra.

Svo er önnur spurning hvað Littlefinger gerir þegar/ef hann kemst að því að í Rickon Stark, lögmætur erfingi Winterfell, sé fangi Ramsay í dýflissu undir kastalanum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×