Innlent

Gamalt úrelt húsnæði er vandamálið

Svavar Hávarðsson skrifar
Deildin sinnir fjölbreyttum hópi sjúklinga sem hafa misst útlim eða glíma við langvinn veikindi, fjöláverka, mænu- og heilaskaða. Fréttablaðið/Vilhelm
Deildin sinnir fjölbreyttum hópi sjúklinga sem hafa misst útlim eða glíma við langvinn veikindi, fjöláverka, mænu- og heilaskaða. Fréttablaðið/Vilhelm
Viðvarandi hús­næðis­vandi og mannekla stendur starfsemi endurhæfingardeildar Landspítalans á Grensási fyrir þrifum, enda er aðalbygging deildarinnar rúmlega fjögurra áratuga gömul. Húsnæðið er barn síns tíma og hentar illa þeim kröfum sem gerðar eru í dag. Mygla er komin upp í gamla húsnæðinu en hugmyndir um byggingu nýrrar álmu á Grensásdeild hafa lengi verið uppi en aldrei komist á fjárlög.

Fréttablaðið fjallaði á mánudag um stöðu endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS á Reykjalundi. Eftirspurn eftir þjónustu er þar miklum mun meiri en unnt er að sinna. Á Reykjalundi bíða nú tæplega þúsund manns eftir þjónustu og biðin er allt upp í eitt ár.

Stefán Yngvason, yfirlæknir Grensásdeildar LSH, bendir á að starfsemi Grensásdeildar sé öðruvísi en Reykjalundar en saman myndi staðirnir góða heild. Grensásdeild er miðstöð frumendurhæfingar á Íslandi fyrir fólk til dæmis vegna heila- og mænuskaða, fjöláverka og margvíslegra sjúkdóma. Biðlistar eru ekki vandamál á Grensásdeild sem markast af eðli starfseminnar, segir Stefán, en hver deild LSH sinnir endurhæfingu eins og hægt er, en þeir sem þurfa lengri tíma fá hjálp á endurhæfingardeildinni.

Stefán Yngvason
„Það eru um 400 manns sem fara í gegnum deildirnar hjá okkur á ári. Það gengur að mörgu leyti vel en það sem háir okkur mest er tvennt; annars vegar húsnæðismálin og hins vegar undirmönnun á vissum sviðum sem skiptir auðvitað miklu máli,“ segir Stefán og nefnir undirmönnun í hjúkrun sem og í iðju-, sjúkra- og talþjálfun. Þá er sálfræðiþjónustan sérstaklega illa stödd um þessar mundir, að sögn Stefáns sem hann segir í hrópandi mótsögn við þörfina á stað þar sem fólk er að takast á við stærstu áföll ævi sinnar. „Það er mikilvægt að bjarga lífum en við verðum jafnframt að tryggja lífsgæði þeirra sem lenda í alvarlegum áföllum,“ segir Stefán spurður um þá áherslu sem virðist vera á uppbyggingu bráðaþjónustunnar á sama tíma og endurhæfingin virðist fá litla athygli.

„Síðan er það húsnæðið. Það er hluti af þessu stóra vandamáli spítalans að það eru rakaskemmdir og mygluvandamál í húsinu og það er ekki búið að klára þær lagfæringar. Síðan er húsið of gamalt og þarf að endursmíða mikið og byggja við. Þar erum við með verkefni í gangi með Hollvinunum [Hollvinir Grensáss], að það það verði byggð við húsið ný álma til að hýsa sjúkra-, iðju-, og talmeinaþjálfun og tengda starfsemi. Það hefur sóst mjög seint að koma því áleiðis,“ segir Stefán og bætir við að fyrir söfnunarfé [Á rás fyrir Grens­ás, 2009] hafi verið gerð bílastæði fyrir fatlaða og yfirbyggður inngangur sem gerbreytti aðstöðunni.

„Það er verið að skoða hvernig þetta verður best gert, en við þurfum að fá meðbyr í því að klára þetta verkefni. Plássleysi er farið að há okkur verulega, til dæmis í þjálfuninni. Sömuleiðis er það þannig að við getum ekki verið með fjölbýli lengur á sólarhringsdeildinni okkar. Öryggisins vegna gengur það ekki lengur. Eins og á öðrum deildum LSH verðum við að hafa meira öryggi varðandi salernisaðstöðu, allt hreinlæti og sýkingarvarnir. Það verður breyta húsnæðinu og byggja við; fjölga herbergjum þannig að allir verði í einbýli. Það er ekkert vit í öðru,“ segir Stefán en aðeins sjö af þeim 24 sem geta dvalið á Grensás á hverjum tíma geta verið í einbýli. Jafnframt segir Stefán að fjölga þurfi rúmum að lágmarki í 28 til 30 upp á starfsemi deildarinnar til framtíðar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×