Erlent

Gáleysi líklegasta skýringin í Viola Beach-málinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Hljómsveitarmeðlimirnir fjórir og umboðsmaðurinn Craig Tarry létu allir lífið þegar bifreiðin fór fram af vindubrú í Svíþjóð þann 13. febrúar síðastliðinn.
Hljómsveitarmeðlimirnir fjórir og umboðsmaðurinn Craig Tarry létu allir lífið þegar bifreiðin fór fram af vindubrú í Svíþjóð þann 13. febrúar síðastliðinn. Vísir/Facebook
Rannsakendur bílslyssins sem grandaði bresku hljómsveitinni Viola Beach og umboðsmanni hennar segja að gáleysi ökumanns sé sennilegasta skýringin á því hvers vegna bifreið hljómsveitarinnar var ekið fram af brú í síðasta mánuði. Í gær var haft eftir rannsakendum að útlit væri fyrir að bifreiðinni hefði viljandi verið ekið fram af brúnni.

Hljómsveitarmeðlimirnir fjórir og umboðsmaðurinn Craig Tarry létu allir lífið þegar bifreiðin fór fram af vindubrú í Svíþjóð þann 13. febrúar síðastliðinn. Þeir voru á leið á hótelið sitt eftir sína fyrstu tónleika á erlendri grundu.

Aftonbladet birti í gær myndband unnið úr öryggismyndavélum á vettvangi en svo virðist sem Nissan Qashqai bifreið sveitarinnar sé ekið upp að bílaröð sem hafði myndast þegar vindubrúin var reist upp vegna skipaumferðar. Á myndbandinu er bílnum bakkað og þvínæst ekið framhjá bílaröðinni, í gegnum vegatálma og fram af brúninni.

„Mín kenning er sú að ökumaðurinn hafi ekki verið að fylgjast nægilega vel með, mögulega var hann að tala í farsíma eða sneri að hinum farþegum bifreiðarinnar,“ segir Lars Berglund, einn rannsakenda í málinu, við Länstidingen Södertälje. Aftonbladet hafði eftir Berglund í gær að það hvernig bílinn ók framhjá bílaröðinni og í gegnum vegatálmana gæti bent til þess að ökumaðurinn hefði ætlað sér að keyra fram af.

Sænska lögreglan hefur þegar greint frá því að ökumaðurinn hafi ekki verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna þegar hann ók fram af brúnni, en lögregla hefur ekki viljað gefa upp hver þeirra fimm sem fórust var við stýrið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×