Fótbolti

Gaitán valdi Atlético Madrid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gaitán og félagar í argentínska landsliðinu mæta Venesúela í 8-liða úrslitum Copa América.
Gaitán og félagar í argentínska landsliðinu mæta Venesúela í 8-liða úrslitum Copa América. vísir/getty
Atlético Madrid hefur náð samkomulagi við Benfica um kaup á Argentínumanninum Nicolás Gaitán.

Það verður þó ekki hægt að ganga endanlega frá kaupunum fyrr en Argentína hefur lokið leik á Copa Ameríca, Suður-Ameríkukeppninni. Gaitán og félagar mæta Venesúela í 8-liða úrslitum keppninnar á laugardagskvöldið.

Gaitán, sem er 28 ára gamall kantmaður, hefur verið í lykilhlutverki hjá Benfica síðan hann kom til liðsins frá Boca Juniors fyrir sex árum. Argentínumaðurinn hefur þrisvar sinnum orðið portúgalskur meistari með Benfica.

Gaitán hefur verið sterklega orðaður við lið eins og Manchester United undanfarin ár en nú er ljóst að hann spilar í spænsku höfuðborginni næstu árin.

Atlético Madrid endaði í 3. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og tapaði fyrir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×